Skoðun

Höldum baráttunni áfram

Árni Páll Árnason skrifar
Við fögnum í dag aldarafmæli kosningaréttar kvenna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir þakkaði fyrir réttum 100 árum þingmönnunum sem komu að því að breyta stjórnarskránni. Þeir voru auðvitað allir karlar. Það minnir okkur á að það er ekki síður hlutverk karla en kvenna að koma jafnrétti á. Að karlar sameinist gegn ofbeldi gegn konum. Að karlar hætti að mismuna konum á vinnustöðum. Að karlar axli jafnan hlut af heimilishaldi á við konur. Að karlar starfi við hlið kvenna í baráttunni fyrir auknu frelsi og auknum völdum kvenna.

Í dag verðum við vitni að nýrri bylgju femínisma. Hún birtist í brjóstabyltingu, til að brjótast út úr staðalmyndum kynjanna og hrelliklámi. Hún birtist í hreinskilinni umræðu um kynbundið ofbeldi, sem hefur náð nýjum hæðum á Beauty tips upp á síðkastið. Það gleður að sjá nýjar kynslóðir berjast, en það er sorgleg áminning um hversu hægar framfarirnar eru þegar enn ein kynslóð ungra kvenna telur sig knúna til að berjast fyrir sjálfsögðum réttindum. Það er líka áminning um að barátta fyrir réttindum er stöðug, því annars blasir við kyrrstaða eða afturför. Dæmi um það er stytting fæðingarorlofsins og baráttan við kynbundinn launamun.

Amma mín var lausaleiksbarn einstæðrar móður, fæddrar í blóðskömm í vistarbandi. Saga hennar og langömmu minnar minnir á að Ísland er ekki bara kynskipt land heldur líka stéttskipt. Betur menntaðar og betur stæðar konur leiddu baráttuna fyrir kosningaréttinum og fátækir karlar fengu kosningarétt um leið og konur. Á bænaskjölum þúsunda kvenna um kosningarétt er nöfn vinnukvenna og niðursetninga hvergi að finna.

Það er því engin tilviljun að stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna fagnar 100 ára afmæli á næsta ári. Hún varð til sem svar við kosningarétti fjöldans. Tilgangur hennar hefur frá upphafi verið að veita þeim afl sem áttu hvorki rödd né völd. Við fylgjum nú femínískri hugmyndafræði og við erum stolt af framlagi Kvennalistans til hreyfingar okkar. Á komandi öld verður barátta jafnaðarmanna áfram barátta fyrir fjöldann gegn forréttindum fárra, fyrir jafnrétti og jöfnum tækifærum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×