Skoðun

Unnið gegn of­beldi

Eygló Harðardóttir skrifar

Brýnt er að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Innan stjórnsýslunnar höfum við innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tekið höndum saman um að vinna gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Einnig verður efnt til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis og lögreglu og ákæruvalds undir forystu ráðuneyta okkar þriggja og undirbúin aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í samfélaginu. Samstarfið mun aðallega ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Jafnframt mun vinnan taka til þess sem telst hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns.



Samráð við lögreglu og ákæruvald

Að undanförnu hef ég átt góða samráðsfundi með ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóranum og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem allir eru mjög áhugasamir um að ná betri árangri með auknu samráði. Nýleg skýrsla ríkislögreglustjóra endurspeglar þetta en þar er m.a. lögð áhersla á að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til að auka öryggi í samfélaginu. Frumkvæðið sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið með auknu samstarfi gegn ofbeldi, fyrst á Suðurnesjunum og nú höfuðborgarsvæðinu, er einnig mikilvægt og hefur sannað sig.



Beauty tips

Opinber umræða um kynferðisofbeldi hefur aukist og nú síðast vegna Facebook-hópsins Beauty tips. Þar hafa þolendur hafnað þöggun og sagt sögu sína. Þolendur ofbeldis, sem oftast eru konur, þurfa á stuðningi að halda. Velferðarráðuneytið hefur veitt fé sem fjármagnar stöðu sálfræðinga við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann. Sá stuðningur beinist sérstaklega að því að veita fórnarlömbum ofbeldis um allt land meðferð og stuðning. Ráðuneytið ákvað einnig nýlega að veita viðbótarframlag til meðferðarúrræðisins Karlar til ábyrgðar. Úrræðið er sérhæft fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum, en var nýlega útvíkkað og stendur einnig konum til boða. Með samstilltu átaki má ná betri árangri í baráttunni gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×