Innlent

Filippseyingar gáfu ágóðann af sölu vorrúlla

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Félagar í samtökunum Project Pearl Iceland við básinn sinn á fjölmenningardeginum.
Félagar í samtökunum Project Pearl Iceland við básinn sinn á fjölmenningardeginum.
Filippseyingar í samtökunum Project Pearl Iceland gáfu ágóðann af vorrúllum og öðrum kræsingum sem þeir elduðu og seldu í Ráðhúsi Reykjavíkur á fjölmenningardeginum fyrir viku, alls 140.342 krónur, í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi.

„Allur ágóði rann í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Nepal sem eiga um sárt að binda eftir jarðskjálftann mikla fyrir um þremur vikum. Framlag þeirra mun meðal annars fara í að útvega hreint vatn og hreinlætisgögn á skjálftasvæðinu í Nepal, nauðsynleg lyf, sálrænan stuðning og bóluefni til að reyna að koma í veg fyrir mislingafaraldur,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Hún segir neyðina í Nepal gríðarlega. „Hvert einasta framlag skiptir máli. Við erum félögum í Project Pearl Iceland innilega þakklát fyrir framlag sitt og fyrir allan stuðninginn. Hann er algjörlega ómetanlegur.“

Neyðarsöfnunin stendur enn yfir en alls hafa safnast yfir 15 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×