Skoðun

Auðlind á silfurfati

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Allar viðvörunarbjöllur landsins hringja nú um að hægristjórnin sé að stíga stórt skref í að einkavæða auðlindir þjóðarinnar. Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi sem í raun er gjöf á makrílkvóta til nokkurra útgerða til langs tíma. Skýrt kemur fram í frumvarpinu að óheimilt er að fella sex ára úthlutun úr gildi með minna en sex ára fyrirvara og gildistíminn framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn. Við álagningu veiðigjalds á makríl er engin tilraun gerð til þess að nálgast sannvirði nýtingarréttarins á auðlindinni, til dæmis með útboðum. Engin kvótasetning hefur enn átt sér stað á makríl og því er tækifæri nú til að skipta um stefnu með þessa nýju fisktegund sem ratað hefur á Íslandsmið.

Tillaga hægristjórnarinnar er að festa nýju tegundina rækilega í gamla kerfinu sem leyfir enga nýliðun í greininni nema gegn greiðslu til þeirra útgerða sem fá makrílkvóta gefins. Þjóðin ber hins vegar skarðan hlut frá borði þegar auðlind hennar er metin til fjár.

Hvað gerir forsetinn?

Getur verið að hagsmunaaðilar í útgerð og ríkisstjórnin hafi fundið leið til þess að læða í gegn stórtækri breytingu á úthlutun aflaheimilda og útreikningi veiðigjalda án þess að þjóðin taki eftir því? Forseti Íslands sagði árið 2012 að mál sem varða auðlindir þjóðarinnar væru vel til þess fallin að setja í dóm þjóðarinnar. Honum bárust 35.000 undirskriftir árið 2013 og hann var beðinn um að staðfesta ekki lög um veiðigjöld sem fólu í sér mikla lækkun gjaldanna. Hann réttlætti staðfestingu þeirra laga með þeim rökum að lögin væru aðeins til eins árs. Hann hlýtur því að bregðast við ótímabundinni úthlutun á makrílkvóta.

Makrílfrumvarpið kann að láta lítið yfir sér við fyrstu sýn, en þegar betur er að gáð er það líklega eitt stærsta skref í átt að einkavæðingu auðlinda þjóðarinnar sem tekið hefur verið. Og auðlindaákvæði vantar enn í stjórnarskrá Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×