Körfubolti

Ekkert lið hefur lifað af risaskell í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Francis, bandaríski miðherjinn hjá Haukum, skoraði 22,8 stig að meðlatali í Keflavíkurseríunnni en Stólarnir héldu honum í aðeins sjö stigum í fyrsta leik.
Alex Francis, bandaríski miðherjinn hjá Haukum, skoraði 22,8 stig að meðlatali í Keflavíkurseríunnni en Stólarnir héldu honum í aðeins sjö stigum í fyrsta leik. Vísir/Valli
Annar leikur undanúrslitaeinvígis Tindastóls og Hauka fer fram í kvöld í Schenker-höllinni á Ásvöllum en staðan er 1-0 fyrir Tindastól eftir 30 stiga sigur í fyrsta leiknum í Síkinu.

Stólarnir þurfa tvo sigra til viðbótar til að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum í fyrsta sinn í fjórtán ár en Haukar verða hins vegar að endurskrifa sögu úrslitakeppninnar ætli þeir sér alla leið í úrslitin í fyrsta sinn frá 1993.

Sextán lið hafa tapað með 30 stigum eða meira í fyrsta leik í einvígi í þriggja áratuga sögu úrslitakeppni karla og engu þeirra hefur tekist að komast áfram. Það eru aðeins fjögur lið úr þessum hópi sem hefur tekist að vinna leik tvö eftir slíkan skell og aðeins eitt af þessum sextán liðum komst alla leið í oddaleik.

Það var í lokaúrslitunum 1991 þegar Njarðvík vann fyrsta leikinn á móti Keflavík með 3 stigum, Keflvíkingar komust síðan í 2-1 áður en Njarðvík tryggði sér titilinn með því að vinna tvo síðustu leikina.

Haukarnir sjálfir hafa lent fjórum sinnum áður í þessari stöðu og eiga enn eftir að vinna leik í seríu eftir slíkt tap í leik eitt. Haukunum var sópað út úr undanúrslitunum 1986 (Njarðvík), í lokaúrslitunum 1993 (Keflavík) og út úr átta liða úrslitunum 1999 (Keflavík) og 2004 (Njarðvík) eftir að hafa tapað fyrsta leiknum með meira en 30 stiga mun.

Haukar hafa þegar komist í fámennan hóp í þessari úrslitakeppni með því að verða aðeins annað félagið frá upphafi sem kemur til baka eftir að hafa lent 2-0 undir en það gerðu Haukarnir í átta liða úrslitunum á móti Keflavík. Nú er að sjá hvort Hafnarfjarðarliðið lifi fyrst liða af risaskell í fyrsta leik.

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, talaði um það að hann hefði líklega smitað leikmenn sína af flensunni í aðdraganda leiksins en þjálfarinn gat lítið verið með liðinu í undirbúningi fyrir leik eitt.

Hvort það er ástæðan fyrir þessu stóra tapi á þriðjudagskvöldið eða hreinlega styrkleiki Stólanna kemur betur í ljós í leik tvö í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsendingin klukkan 19.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×