Menning

Fyndið leikverk en sársaukafullt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þær Elma Lísa og Birgitta í hlutverkum sínum.
Þær Elma Lísa og Birgitta í hlutverkum sínum. Mynd/Borgarleikhúsið
„Hystory er fyndið verk en líka sársaukafullt,“ segir Arndís Hrönn Egilsdóttir um hið splunkunýja leikrit Kristínar Eiríksdóttur sem leikhópurinn Sokkabandið frumsýnir í kvöld á Litla sviði Borgarleikhússins.

Arndís Hrönn segir það fjalla um þrjár fertugar konur sem búi yfir leyndarmáli um hræðilegan atburð.

„Þær voru bestu vinkonur til fimmtán ára aldurs en hafa ekki verið í sambandi lengi, tvær þeirra hafa þó stundum nikkað hvor til annarrar. Nú hittast þær kvöldstund og gera tilraun til að horfast í augu við fortíðina. Atburðurinn hefur markað allar konurnar fyrir lífstíð og ein þeirra lifir á jaðri samfélagsins, það er Begga sem ég leik,“ lýsir hún.

Auk Arndísar Hrannar eru þær Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir á sviðinu. Ólafur Egilsson er leikstjóri og tónlist er í höndum Högna Egilssonar og Valdimars Jóhannssonar.

Arndís Hrönn hefur mikla trú á Hystory og segir fólk á öllum aldri eiga að geta tengt við sársauka og stjórnleysi unglingsáranna. „Kristín er flott skáld og góð í að búa til beinskeytt samtöl og sterk.

Það var mikið hlegið á forsýningunni í gær, enda leiftrandi svartur húmor í verkinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.