Íslenski boltinn

Það verður að kaupa hann ef hann ætlar að fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Steinn vill spila áfram í efstu deild.
Guðmundur Steinn vill spila áfram í efstu deild. Vísir/Andri Marinó
Guðmundur Steinn Hafsteinsson, framherji Fram sem leikur í 1. deild karla í sumar, hefur á síðustu dögum æft með Pepsi-deildarliði Vals þrátt fyrir að vera samningsbundinn Fram.

Guðmundur Steinn var einn af fáum leikmönnum sem Fram fékk til sín í „verkefnið“ á síðustu leiktíð sem var ekki með klásúlu í samningi sínum sem gerði honum kleift að fara eftir tímabilið. Flóttinn úr Safamýri var rosalegur eftir síðasta sumar en í heildina eru ellefu leikmenn farnir.

„Guðmundur var eitthvað að æfa með Val,“ staðfestir Sverrir Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, við Fréttablaðið. „Hann langar til að vera í efstu deild og fékk að prófa að æfa með þeim svona ef eitthvað skyldi gerast.“

Hvorki Valur né önnur félög hafa gert Fram kauptilboð í Guðmund Stein, sem skoraði fimm mörk í tólf leikjum í Pepsi-deildinni í fyrra. Eina von hans um að spila í deild þeirra bestu í sumar er ef hann verður keyptur.

„Hann er leikmaður Fram í dag og það verður að kaupa hann ef hann ætlar að fara. Það hafa verið einhverjar þreifingar en okkur hefur ekki borist neitt tilboð enn þá,“ segir Sverrir Einarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×