Skoðun

Ekki bara fyrir Dorrit

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Síðastliðið haust mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi feli innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, með það að markmiði að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum, hvort heldur er þegar bæði hafa bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis. Einnig verði lagðar til breytingar á öðrum lögum sem þarf að breyta til að markmiðinu verði náð. Þingsályktunartillagan er nú til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd. Hana má finna á þessari slóð og þar er einnig hægt að skoða innsendar umsagnir um málið.

Lög um lögheimili hafa staðið óbreytt í um aldarfjórðung. Á þeim tíma hafa átt sér stað miklar breytingar á þjóðfélagsaðstæðum, enda hefur þjóðin síðan þá gerst aðili að EES-samningnum, netvæðst og upplifað bankahrun svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur nokkuð borið á því að hjón hafi lent í vandræðum vegna ákvæðis 7. gr. laganna þar sem segir að hjón eigi sama lögheimili. Vinnuveitendur sem ráða til sín starfsfólk hafa stundum krafist þess að það skrái lögheimili sitt í því sveitarfélagi þar sem starfsemi vinnuveitandans á sér stað. Það hefur einnig færst í vöxt að hjón eða sambýlisfólk vinni hvort í sínu sveitarfélaginu. Þessar kröfur hafa því gert það að verkum að maki starfsmanns hefur þurft að flytja lögheimili sitt til sama sveitarfélags þrátt fyrir að bækistöð hans sé í raun í öðru sveitarfélagi eða jafnvel slíta samvistum við starfsmanninn. Þessar kringumstæður letja mögulega sambýlisfólk til að ganga í hjónaband þar sem að því fylgi breyting á lögheimili.

Tími til endurskoðunar

Í kjölfar bankahrunsins þurftu margir að sækja sér vinnu utan landsteinanna. Oft heldur þá annað hjóna utan á meðan hitt býr hér heima áfram ásamt börnum. Í sumum löndum er þess krafist að þeir sem ætla sér að sinna atvinnu innan landamæra þeirra flytji lögheimili sitt þangað. Svo háttar t.d. til í Noregi en margir Íslendingar hafa sótt atvinnu þangað. Enga heimild er hins vegar að finna í lögum um lögheimili til að skrá lögheimili hjóna í mismunandi löndum. Slíkt hefur hins vegar verið heimilað í mörgum tilvikum á grundvelli venju, óskráðrar réttarheimildar.

Kominn er tími til að taka lögin um lögheimili til endurskoðunar. Líklegt er að endurskoðunin hafi í för með sér að breyta þurfi ákvæðum annarra laga, t.d. ábúðarlaga, laga um tekjuskatt og laga á sviði almannatrygginga. Það að hjónum sé heimilt að eiga lögheimili hvort á sínum stað er hagsmunamál margra, bæði einstaklinga og sveitarfélaga ef svo ber undir. Heimildir hafa fengist um slíkt á milli landa. Forseti Íslands og eiginkona hans eru t.d. ekki með sama lögheimili.

Ég vil að heimildin verði almenn og valfrjáls og eigi ekki aðeins við þegar hjón starfa í hvort í sínu landinu. Það er von mín að þingsályktunartillagan verði samþykkt á þessu þingi og að frumvarp um breytinguna komi fram sem fyrst. Flutningsmenn tillögunnar eru úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Pólitískur ágreiningur ætti því ekki að tefja afgreiðslu málsins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×