Menning

Í hláturskasti beint í æð

Elín Albertsdóttir skrifar
Það hefur verið nóg að gera hjá Þórunni í vetur, hún leikur í Beint í æð og æfir fyrir Billy Elliot. Móðir hennar kom frá Ísafirði til að aðstoða hana með barnapössun því unnustinn var að setja upp leiksýningu á Akureyri.mynd/gva
Það hefur verið nóg að gera hjá Þórunni í vetur, hún leikur í Beint í æð og æfir fyrir Billy Elliot. Móðir hennar kom frá Ísafirði til að aðstoða hana með barnapössun því unnustinn var að setja upp leiksýningu á Akureyri.mynd/gva Vísir/GVA
Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikkona hlakkar til helgarinnar, enda langþráð frí á morgun og unnustinn, Vignir Rafn Valþórsson, er væntanlegar heim eftir langa dvöl á Akureyri.

Þórunn Arna leikur í einni vinsælustu leiksýningu landsins um þessar mundir, Beint í æð, og á föstudag verður söngleikurinn Billy Elliot frumsýndur þar sem hún fer með hlutverk. Búast má við að sú sýning eigi eftir að verða gífurlega vinsæl. „Í gær var rennsli á Billy Elliot en strangar æfingar hafa verið síðan í byrjun desember. Börnin hafa þó æft mun lengur,“ segir Þórunn þegar við náðum símasambandi við hana í leikhúsinu. Það var erfitt að finna tíma í smá spjall. Þórunn Arna var spurð hvernig hún ætlaði að verja helginni. En í kvöld er Beint í æð aftur á fjölunum svo fríið byrjar ekki fyrr en á morgun.

„Á laugardagsmorgnum fer ég alltaf í ræktina með systur minni og við höfum okkar gæðastund þar. Í hádeginu bjóða foreldrar mínir í bröns. Þau eru dugleg að bjóða okkur systkinunum, mökum og barnabörnum í mat. Það er svo gaman þegar fjölskyldan hittist. Borðin svigna líka alltaf undan kræsingunum hjá mömmu og pabba, eins og að fara á besta veitingastað í heimi,“ segir Þórunn sem er ættuð frá Ísafirði. Móðir hennar, Halldóra Magnúsdóttir, hefur dvalið í borginni í vetur til að hjálpa dóttur sinni með barnapössun. „Dóttir mín, Kría Valgerður, er ársgömul og þar sem við foreldrarnir höfum haft mikið að gera fengum við mömmu til hjálpar,“ segir hún.

Fjarri góðu gamni

Unnusti Þórunnar, Vignir Rafn, hefur starfað á Akureyri undanfarnar vikur þar sem hann er að setja upp og leikstýra verkinu Lísa í Undralandi. „Það verður hátíðisdagur á morgun þegar hann kemur heim og við munum örugglega gera eitthvað skemmtilegt. Sannkallaður fjölskyldutími. Í gærkvöldi var frumsýning hjá honum og mér fannst mjög leiðinlegt að geta ekki verið viðstödd og fagnað með honum. Stundum er þetta svona hjá leikurum og lítið við því að gera,“ segir Þórunn og bætir við að hún sé þó ánægð með að hans verki sé lokið fyrir norðan og hann á heimleið.“

Mikið hlegið

Þegar Þórunn er spurð hvort hún skemmti sér jafn vel og áhorfendur á Beint í æð í leikhúsinu, svarar hún því játandi. „Það eru forréttindi að eyða kvöldstund með fólki í hláturskasti. Það er alltaf uppselt á þessar sýningar og þær halda því áfram. Meðfram þessu hefur verið langt og strangt æfingaferli á Billy Elliot. Það er mikill dans og söngur í þeirri sýningu. Bæði gleði og sorg. Þetta er falleg saga sem við erum að segja. Það er mikil orka í leikhópnum sem hefur náð einstaklega vel saman. Þetta hefur því verið skemmtilegur vetur og ég hlakka mikið til frumsýningarinnar,“ segir hún.

Þórunn útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010. Áður hafði hún verið í söngnámi sem var góður undirbúningur fyrir leiklistina sem hún stefndi alltaf að. „Ég flutti til Reykjavíkur eftir menntaskólanám en komst ekki strax í leiklistarnám. Þá lá beinast við að fara í söngnám,“ segir Þórunn Arna.

Falleg saga

Þórunn stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar en músíkin hefur alltaf fylgt henni. Aðallega hefur hún sungið á leiksviði. „Annars byrjaði ég að syngja dúett með vinkonu minni, Herdísi Örnu Jónasdóttur, þegar ég var barn þannig að þetta hefur alltaf fylgt mér. Herdís er í dag óperusöngkona og starfar í Þýskalandi. Ég var alltaf ákveðin í að verða leik- og söngkona. Allan skólaferilinn var ég í skólaleikritum og tók þátt í öllu sem sett var upp,“ segir hún.

Amma Þórunnar lék með áhugaleikfélögum á Þingeyri og hafði alltaf mikinn áhuga á leiklist. „Ég á tvö frændsystkini sem eru leikarar, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Stefán Benedikt Vilhelmsson. Fleiri yngri hafa áhuga á að feta þessa braut,“ segir Þórunn en hún segir að eftirminnilegasta hlutverk hennar sé Karma fyrir fugla, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Hún var tilnefnd til Grímunnar árið 2013 fyrir hlutverk sitt í þeirri sýningu. Þórunn hefur leikið í mörgum vinsælum sýningum og má þar nefna Dýrin í Hálsaskógi, Jónsmessunótt, Macbeth, Afmælisveisluna, Vesalingana, Heimsljós og Ballið á Bessastöðum. Þá hefur hún leikið í Stelpunum á Stöð 2 og hún leikur einnig í kvikmyndinni Blóðberg sem frumsýnd verður um páskana.

„Það er svo ánægjulegt hvað þetta starf er fjölbreytt og maður er alltaf að takast á við eitthvað nýtt og spennandi. Þegar sýningar hefjast á Billy Elliot fæ ég frí frá æfingum sem verður frábært því þá get ég varið meiri tíma að deginum með dóttur minni.“

Þegar Þórunn er spurð hvort einhver kvíði læðist að fyrir svona stóra frumsýningu, svarar hún: „Nei, enginn kvíði. Ég hlakka miklu frekar til og það eru spennandi tímar fram undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.