Menning

Nýt þess að kneyfa hvern dag í botn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jónas, Kristján og Bjarni Frímann skemmta í Salnum síðdegis í dag.
Jónas, Kristján og Bjarni Frímann skemmta í Salnum síðdegis í dag.
Lágfiðla, söngur og píanó koma við sögu á tónleikum í Salnum í dag klukkan 16 þar sem Bjarni Frímann Bjarnason, Kristján Jóhannesson og Jónas Ingimundarson flytja fjölbreytta efnisskrá. Ókeypis er inn.

Tilefni tónleikanna er að Bjarni Frímann mun fá afhenta viðurkenningu úr styrktarsjóði Önnu K. Nordal.

Bjarni Frímann er nýkominn vestan úr Grundarfirði þar sem hann gegndi starfi organista um jól og áramót og segir það hafa gert jólin sérlega gleðileg hjá sér. „Mér finnst alltaf gaman að spila og keyra,“ segir hann og kveðst hafa tekið ástfóstri við orgelið undanfarið.

„Grundarfjörður er líka dásamlegur staður, fólkið yndislegt, kórinn skemmtilegur og presturinn meiri háttar. En ég settist ekki að,“ tekur hann fram, enda í námi í hljómsveitarstjórn úti í Berlín.

„Ég hef ekki verið alveg nógu kátur með námið úti og þegar ég byrja að tala um það dreg ég upp ranga mynd af mínum persónuleika því ég er annars glaðvær og nýt þess að kneyfa hvern dag í botn. Þetta er þó það sem mig langar mest að leggja fyrir mig, að stjórna hljómsveit.“

Þetta er í fimmtánda sinn sem viðurkenning er veitt úr styrktarsjóði Önnu Nordal en honum ber að styrkja efnilega tónlistarnema í söng og fíólínspili.

Anna fæddist í Vesturheimi árið 1902 og lést árið 1998.  Hún bjó alla tíð í Kanada og kom aldrei til Íslands en bar sterkar taugar til landsins, eins og sjóðurinn er til vitnis um. Hún var alþýðukona, mikill unnandi tónlistar og vildi styrkja ungt tónlistarfólk í námi og hvetja til frekari árangurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.