Fótbolti

Íslendingar fá ekki að sjá strákana sína á heimavelli fyrir EM

Tómas þór Þórðarson skrifar
Það fær enginn að sjá Ragnar Sigurðsson eða hina strákana okkar í Dalnum fyrir EM.
Það fær enginn að sjá Ragnar Sigurðsson eða hina strákana okkar í Dalnum fyrir EM. vísir/vilhelm
Karlalandsliðið í fótbolta hefur spilað sinn síðasta heimaleik fyrir Evrópumótið í fótbolta, en enginn af undirbúningsleikjunum fyrir EM fer fram á Laugardalsvelli. Þetta kom fram í máli Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, í Kastljósi RÚV í kvöld.

Strákarnir eru nú þegar búnir að spila tvo vináttuleiki; gegn Póllandi og Slóvakíu, á útivelli og næstu þrír leikir verða einnig erlendis eins og vitað var.

Ísland mætir Finnlandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum í Abu Dhabi 13. og 16. janúar og svo bandaríska landsliðinu í Los Angeles 31. janúar.

Það eru allt óopinberir leikdagar en fyrsta opinbera leikdaginn í mars verður einnig spilað erlendis þar sem ekki er hægt að spila hér heima.

Klara sagði að til stóð að spila einn vináttuleik í júní á Laugardalsvellinum en allt stefnir í að svo verði ekki. Verið er að leita að mótherjum í næstu leiki.

„Við erum að vinna í þeim málum og vonumst til að landa því á næstu dögum. Því miður sjáum við ekki fram á að spila hér heima vegna verkefna leikmanna erlendis,“ sagði Klara í Kastljósi.

„Það var okkar plan að spila hér heima og gefa íslenskum áhugamönnum tækifæri á að sjá leikmennina okkar á heimavelli en það stefnir í að svo verði ekki,“ sagði Klara.

KSÍ vonast til að fá leik við eina EM-þjóð í júní en liðið má aðeins spila einn leik við lið sem er að fara á Evrópumótið áður en það hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×