Fótbolti

Íslensku strákarnir spila með „Beau Jeu" næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samsett mynd
Zinedine Zidane kynnti keppnisboltann á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar á instagram-síðu sinni á dögunum en íslensku strákarnir fá að sparka í þennan bolta eftir sjö mánuði.

Í fyrsta sinn í sögu Evrópumótsins verður ekki notaður sami bolti í riðlakeppninni og í útsláttarkeppninni.

Boltinn sem verður notaður í riðlakeppninni heitir „Beau Jeu" og er framleiddur af Adidas. Hann byggir á boltanum sem var notaður á HM í Brasilíu 2014. „Beau Jeu" þýðir „Hinn fallegi leikur."

Stafirnir E-U-R-O og ártalið 2-0-1-6 eru settir saman á áberandi hátt á boltanum og eru í frönsku fánalitunum.

Boltinn hefur verið í þróun í átján mánuði en bestu kostir Brazuca-boltans frá því í Brasilíu eru áfram til staðar.

Íslenska liðið verður að minnsta kosti með í riðlakeppninni á EM í Frakklandi og strákarnir spila því með þennan bolta í leikjum sínum næsta sumar.

Gareth Bale, leikmaður Real Madrid og velska landsliðsins, er einn af þeim sem hefur fengið að prófa nýja boltann og hann var mjög ánægður með hann í viðtali við UEFA.

Öll knattspyrnusamböndin sem eiga fulltrúa á Evrópumótinu, þar á meðal hið íslenska, fá senda til sína nýja bolta fyrir lok nóvember. KSÍ fær því sex mánuði til að leyfa leikmönnum að æfa og spila með nýja boltann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×