Enski boltinn

Beckham hvetur Ronaldo að snúa aftur til United fái hann tækifæri til

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldo og Beckham á góðri stundu.
Ronaldo og Beckham á góðri stundu. vísir/getty
David Beckham, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, segir Cristiano Ronaldo að snúa aftur heim til Manchester United ætli hann sér að yfirgefa Real Madrid.

Beckham segir að hann hafði skriðið til baka hefði honum verið gefið tækifæri til þess, en hann sjálfur yfirgaf United árið 2003 og gekk í raðir Real Madrid; árið sem Ronaldo kom.

„Ég hefði komið til baka hefði ég getað, en að fá tækifærið til að spila fyrir eitt stærsta félag í heimi þegar ég yfirgaf United, Real Madrid, var draumur. Ég myndi þó aldrei ráðleggja leikmanni að snúa ekki aftur til United,” er haft eftir Beckham við fjölmiðla.

„Cristiano er eftirlæti stuðningsmanna United. Hann lagði mikið á sig hjá United og allir sem þú talar við segja að hann er ekki bara með gæðin í leiknum, heldur einnig leggur hann mikið á sig.”

Hinn þrítugi Ronaldo hefur reglulega verið orðaður burt frá Madríd, en PSG, Chelsea og áðurnefnt United eru sagðir líklegustu áfangastaðirnir. Beckham mælir með United á ný fyrir Ronaldo:

„Ef hann yfirgefur Real þá ætti hann að snúa aftur til United. Ég hafði aldrei möguleikann á að gera það - en ég er stoltur af liðunum sem ég spilaði með eftir United,” sagði þessi frábæri leikmaður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×