Erlent

Parísarbúar koma saman á République-torgi til að minnast fórnarlamba

Atli Ísleifsson skrifar
Að minnsta kosti 129 fórust í árásunum og 350 særðust.
Að minnsta kosti 129 fórust í árásunum og 350 særðust. Vísir/AFP
Mörg hundruð manns hafa komið saman á République-torgi í París í kvöld til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í París á föstudagskvöld. Fólk hefur kveikt á kertum og skilið eftir við sérstakan minnisvarða sem búið er að koma upp til minningar um þá föllnu.

Franski saksóknarinn Francois Molins greindi frá því fyrr í dag að þrír hópar manna hafi staðið fyrir hryðjuverkaárásunum þar sem að minnsta kosti 129 fórust og rúmlega 350 særðust.

Molins sagði nauðsynlegt að komast að því hvaðan árásarmennirnir komu og hvernig þeir voru fjármagnaðir. Hann sagði alla árásarmennina sjö hafa drepist og að þeir hafi allir verið búnir Kalashnikov-rifflum og sömu gerð af sprengjuvestum.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum og greindu sjónarvottar frá því að árásarmennirnir, sem flestir voru á aldrinum fimmtán til átján, hafi hrópað að árásirnar væru hefndaraðgerðir vegna loftárása Frakka á liðsmenn ISIS í Sýrlandi.

Manuel Valls, forsætisráðherra sagði í kvöld að Frakkar muni ekki láta af árásum sínum á skotmörk ISIS í Sýrlandi og Írak.

Molins greindi einnig frá því að þrír menn hafi verið handteknir í úthverfi belgísku höfuðborgarinnar Brussel vegna gruns um að tengjast árásunum.

Hryðjuverkaárásirnar eru þær mannskæðustu í Evrópu frá árásunum í Madríd á Spáni árið 2004 þar sem 191 fórst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×