Fótbolti

Engin áform um að hætta við EM í Frakklandi í kjölfar hryðjuverkaárasanna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jacques Lambert er forseti mótsins næsta sumar.
Jacques Lambert er forseti mótsins næsta sumar. vísir/getty
Það eru engar áætlanir um að hætta við Evrópumótið 2016 í kjölfar hryðjuverkaárasanna sem gerðar voru á París á föstudagskvöldið. Þetta segir forseti mótsins, Jacques Lambert.

Heimavöllur franska landsliðsins í knattspyrnu var einn af þeim stöðum sem átti að ráðast á, en miklir skothvellir heyrðust fyrir utan þegar Frakkland spilaði æfingarleik við Þýskaland á föstudag. Þetta hefur vakið ótta stuðningsmanna og eru jafnvel einhverjir hræddir að fara til Frakklands næsta sumar í kjölfar hryðjuverkanna.

„Ef við tölum um Evrópumótið, þá var það stórt áhyggjuefni og nú er það jafnvel enn stærra,” sagði Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins.

Jacques Lambert, forseti EM í Frakklandi 2016, segir að það séu engar áætlanir um að hætta við EM í ljósi þessara hræðilegu árasa.

„Við munum taka ákvörðun sem við þurfum að taka svo lokamót EM verði haldið í sem öruggustum aðstæðum. Gæslan á völlunum gengur vel, en áhættan er meira út á götunum - í sjálfsprotnum samkomum,” sagði Lambert.

„Allar hugleiðingar um hvort eigi að hætta við EM 2016 er í takt við það sem hryðjuverkamennirnir vilja ná fram.,” sagði Lambert við frönsku útvarpsstöðina RTL.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×