Innlent

Forsætisráðherra segir þurfa að meta tækjabúnað lögreglu hér á landi í kjölfar hryðjuverkaárása

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Við getum ekki leyft okkur að líta framhjá þessu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 af heimili sínu spurður um hvort hryðjuverkin í París hefðu breytingar í för með sér fyrir löggæslu hér á landi. Hann fundaði í dag ásamt Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra til þess að fara yfir varnarmál hér á landi.

„Ljóst er að í nágrannalöndunum líta menn svo á að það sé raunveruleg ógn yfirvofandi. Að þetta gæti verið upphafið af einhverju sem getur varað árum eða áratugum saman; að við horfum í raun fram á breytta heimsmynd. Þó þurfum við að laga okkur að því að aðstæður á Íslandi séu um margt ólíkar því sem er í nágrannalöndunum.“

Sigmundur Davíð gat ekki staðfest að breytingar yrðu á löggæslu eða varnarmálum hér á landi og þá ekki hverjar þær breytingar gætu verið. „Við þurfum að fylgjast með því hvort þurfi að gera breytingar. Við erum að skoða hvort þetta kalli á breytingar af okkar hálfu.“

Forsætisráðherrann ítrekaði að mikilvægt væri að halda góðu sambandi við nágrannalönd okkar.

„Það þarf að kanna hvort lögreglan á Íslandi meti það sem svo að hún hafi þau tæki og úrræði sem hún þarf við þessar aðstæður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×