Fótbolti

Real Madrid komið áfram eftir sigur á PSG | Sjáið sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nacho fagnar marki sínu.
Nacho fagnar marki sínu. Vísir/EPA
Real Madrid tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir 1-0 heimasigur á franska liðinu Paris Saint-Germain á Santiago Bernabeu í kvöld.

Real Madrid hefur sjö stigum meira en Shakhtar Donetsk sem er í þriðja sæti riðilsins en aðeins sex stig eru eftir í pottinum.

Sigurinn þýðir einnig að Real Madrid þarf bara þrjú stig í viðbót til þess að tryggja sér sigurinn í riðlinum því spænska liðið verður alltaf ofar en PSG á innbyrðisviðureignum verði liðin jöfn að stigum.

Eina mark leiksins var að slysalegri gerðinni og leikmenn Paris Saint-Germain fengu svo sannarlega tækifæri til þess að tryggja sér sigur í kvöld.

Parísarmenn fengu fyrstu tvö alvöru færi leiksins og komu þau með mínútu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn.

Keylor Navas varði fyrst frá Blaise Matuidi eftir að Serge Aurier hafði farið illa með Marcelo og mínútu síðar átti Zlatan Ibrahimovic gott skot sem fór frétt framhjá markinu.

Zlatan Ibrahimovic var aftur nálægt því að skora á 30. mínútu þegar aukaspyrna hans af 30 metra færi fór rétt framhjá nærstönginni.

Það voru hinsvegar heimamenn í Real Madrid sem skoruðu og þar var að verki varamaðurinn Nacho á 35. mínútu en hann hafði komið inná fyrir Marcelo aðeins tveimur mínútum áður.

Toni Kroos átti þá skot í varnarmann og Nacho nýtti sér ótrúlega skógarferð hjá Kevin Trapp, markverði Paris Saint-Germain.

Aðeins tveimur mínútum síðar átti Adrien Rabiot skot í stöngina og Édinson Cavani fékk síðan tvö frábær færi á lokamínútum hálfleiksins án þess að ná að skora.

Isco bar nálægt því að skora í tvígang í seinni hálfleiknum en Kevin Trapp varði vel frá honum í bæði skiptin. Real Madrid hélt aftur af gestunum í seinni og vann gríðarlega mikilvægan sigur.

Nacho skorar fyrir Real á móti PSG



Fleiri fréttir

Sjá meira


×