Fótbolti

Hafa ekki skorað sjálfir en eru samt komnir með tvö stig í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Astana og Atlético Madrid í dag.
Frá leik Astana og Atlético Madrid í dag. Vísir/AFP
Astana frá Kasakstan náði í dag í stig á heimavelli á móti spænska liðinu Atlético Madrid þegar liðin gerðu markalaust jafntefli í Astana.

Astana-liðið hefur þar með náð í tvö stig í fyrstu fjórum leikjum sínum en leikmenn liðsins eiga þó enn eftir að skora mark.

Astana gerði 2-2 jafntefli á heimavelli í fyrsta heimaleik sínum á móti tyrkneska liðinu Galatasaray en þá voru bæði mörk Astana-liðsins sjálfsmörk hjá leikmönnum Galatasaray.   

Leikmenn Galatasaray hafa þar með skorað einu mörk Astana í Meistaradeildinni en þetta er í fyrsta sinn sem þetta lið frá Kasakstan kemst í riðlakeppnina.

Atlético Madrid vann 4-0 sigur þegar liðin mættust á Spáni í síðustu umferð en nú tókst Fernando Torres og félögum ekki að finna leið í markið hjá Kasökunum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Astana-liðið heldur hreinu í Meistaradeildinni en liðið var búið að fá á sig átta mörk í fyrstu þremur leikjum sínum og tvö mörk eða meira í öllum leikjunum.

Atlético Madrid er nú samt á fínum málum í efsta sæti C-riðilsins með sjö stig og einu stigi meira en Benfica sem tekur á móti Galatasaray í kvöld. Galatasaray er með 4 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×