Innlent

Andri Snær og Björk: Umræða um sæstreng til Bretlands í anda sagna af álfum og tröllum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Andri Snær Magnason og Björk Guðmundsdóttir segja löngu komin tíma til að fólk fái að vita sannleikann. Öll umræða um sæstreng frá Íslandi til Bretlands séu í anda sagna af álfum og tröllum.

„Reyndar hefur amma mín séð álfkonu en ég get ekki flutt hana til Bretlands,“ sagði Andri Snær á blaðamannafundi þeirra Bjarkar í Gamla bíó í dag. Þangað voru erlendir blaðamenn boðaðir í þeim tilgangi að verða upplýstir um stöðu mála í íslensku samfélagi. Sýnt var beint frá fundinum á Vísi og má sjá upptökuna frá honum í spilaranum að ofan.

Þau Andri og Björk hafa starfað sem sjálfboðaliðar undanfarin ár í baráttu sinni fyrir verndun hálendis Íslands og náttúru fyrir eilífum virkjunarframkvæmdum. Undanfarið ár hafa launaðir starfsmenn undir merkjum hópsins Gætum Garðsins unnið að því að kortleggja virkjunarverkefni, setja hlutina í samhengi, reikna dæmið til enda og hjálpa til við markmið hópsins.

Kynningarmyndband hópsins um aðgerðir stjórnvalda má sjá hér að neðan.

Klýfur hálendið í tvennt

Ljóst sé að fyrirhugaðar framkvæmdir stjórnvalda verði ekki stöðvaðar með lögum heldur þurfi að höfða til samvisku stjórnmálamannanna. Á dagskránni séu malbikaðir vegir og nýjar háspennulínur sem muni skipta landinu í tvennt auk fjölda annarra umdeildra framkvæmda á hálendinu. Þar af fimmtán stíflur eða orkuver.

Andri Snær nefndi sem dæmi eilífa umræðu um sæstreng frá Íslandi til Bretlandst til að sjá Bretum fyrir rafmagni og efla tekjur Íslendinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og David Cameron, kollegi hans í Bretlandi, ræddu þetta á fundi í síðustu viku og sagðist Cameron spenntur fyrir hugmyndinni.

„Ef við myndum virkja hverja einustu á á Íslandi gætum við mögulega framleitt tíu prósent af því rafmagni sem Bretar nota,“ sagði Andri Snær og vísaði í tölur sem sérfræðingar Gætum garðsins hafa tekið saman.

Að neðan má sjá kort yfir svæðið sem til umræðu er.

Iceland is not an infinite source of energy; it's home to delicate nature that we want to preserve.This map provides...

Posted by Gætum garðsins on Friday, November 6, 2015
Ríkisstjórn virki þvert á skoðun almennings

Andri Snær segir að umhverfisverndarsinnar séu í stöðugri baráttu við orkuhæp. Hvert einasta álver á Íslandi noti rafmagn sem myndi duga milljón Íslendingum. 

Björk bætti við að áttatíu prósent Íslendinga væru sammála um mikilvægi þess að vernda umhverfið. Það mætti síns hins vegar lítils gegn aðgerðum ríkjandi stjórnvalda.

„Ísland er ennþá staður töfra. Hér er hins vegar lítill infrastrúktúr. Það þýðir að hlutum má koma í framkvæmd auðveldlega. Til dæmis að koma á fót tónlistarhátíð,“ sagði Björk. Hins vegar geti það virkað í báðar áttir. Það hafi sést í hruninu 2008.

„Ríkisstjórnin sem hefur aðeins verið við völd í tvö ár hefur þegar planað að virkja áttatíu svæði á Íslandi. Talan er sem betur fer komin niður í 54 svæði nú,“ segir Björk. Hún hefur miklar áhyggjur af því að núverandi ríkisstjórn reyni, þvert á skoðanir almennings, að keyra orkuverkefni sín í gang á meðan hún sé við völd.

Nokkur þeirra svæða sem eru í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

Places threatened by plans for development outlined in the government's Master Plan for conservation of nature and utilization of energy

Posted by Gætum garðsins on Thursday, November 5, 2015
Reisa álver eins og afleiðingarnar séu engar

Andri og Björk segja rafmagnsframleiðslu á Íslandi nú þegar tíu sinnum meiri en þörf er á fyrir íbúa landsins. Þau velta upp þeirri spurningu hvaða álverum standi til að loka ef skoða eigi raunverulega þann möguleika að koma rafmagni til Bretlands með sæstreng.

„Við búum á raunverulegum stað, með fallegum fossum og náttúru og trúum því sannarlega að það væri verðmætara fyrir okkur og heiminn að varðvæta hálendið og gefa fólki færi á að njóta þess og sækja innblástur,“ sagði Andri.

Þau séu á útopnu nú með Facebook-síðuna Gætum garðsins auk þess sem undirskriftasöfnun standi yfir. Sumum svæðum eins og Langasjó hafi tekist að bjarga en aðrir hafa tapast. Þar megi nefna glæsilega fossa og vötn á Austurlandinu sem fóru undir virkjun við Kárahnjúka til að framleiða rafmagn fyrir Alcoa.

Enn stjórnvöld tali enn fyrir því að reisa fleiri álver og selja rafmagn til Bretlands eins og afleiðingarnar af því séu engar.

Skilaboð sem Björk birti á YouTube má sjá hér að neðan. Upptakan af fundinum er í spilaranum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×