Fótbolti

Mourinho: Dómarinn veikgeðja og barnalegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho hefur verið í betra skapi eftir leiki.
Jose Mourinho hefur verið í betra skapi eftir leiki. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var allt annað en ánægður með það að Chelsea fékk ekki vítaspyrnu þegar varnarmaður Dynamo Kiev virtist fella Cesc Fabregas í leik liðanna í Úkraínu í kvöld.

Atvikið átti sér stað á 18. mínútu leiksins en Cheslea tókst ekki að skora hjá Dynamo Kiev og niðurstaðan var markalaust jafntefli.

„Dómarinn var veikgeðja og barnalegur þegar hann dæmdi ekki víti. Ég skil heldur ekki hvað dómarinn á bak við markið gerir því hann tekur heldur enga ákvörðun þarna," sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég sé samt framfarir hjá mínu liði. Við áttum tvö skot í markramman og liðið spilaði trausta vörn á móti hættulegu liði. Það hefði verið mjög slæmt fyrir okkur að tapa þessum leik," sagði Mourinho.

Jose Mourinho hafði þó aðeins húmor fyrir sjálfum sér á blaðamannafundinum en einn blaðamannanna spurði hann hvort hann óttaðist ekki sekt þar sem hann kallaði dómarann veikgeðja og barnalegan.

„Allt í lagi. Þetta var ekki vítaspyrna," sagði Jose Mourinho um leið og hann yppti öxlum og glotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×