Körfubolti

Hafa unnið síðustu 19 heimaleiki sína með Helenu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir
Helena Sverrisdóttir Vísir/Anton
Helena Sverrisdóttir spilar í kvöld sinn fyrsta heimaleik í úrvalsdeild kvenna í meira en átta ár þegar Haukar taka á móti Snæfelli í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Haukaliðið vann ellefu stiga sigur á Stjörnunni í fyrstu leik en sá fór fram í Ásgarði í Garðabæ. Snæfell hefur unnið tvo fyrstu leiki sína og eru þetta nú tvö af þremur taplausum liðum deildarinnar.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 6 og lýsendur verða þeir Valtýr Björn Valtýsson og Ágúst Björgvinsson.

Fyrsti deildarleikur Helenu var einnig í beinni og þar var landsliðsfyrirliðinn óstöðvandi með 35 stig, 15 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta.

Helena er nú mætt aftur á Ásvelli sem er sama hús og sami salur þótt að húsið sé komið með nýtt nafn. Ásvellir heita nú Schenkerhöllin.

Haukaliðið var á mikilli sigurgöngu í deildarleikjum á Ásvöllum þegar Helena yfirgaf liðið eftir 2006-07 tímabilið og nú er að sjá hvort hún haldi áfram í vetur.

Haukaliðið vann alla 10 heimaleiki sína í deildinni tímabilið 2006-07 og síðustu 9 heimaleiki sína í deildinni 2005-06. Helena var með í öllum þessum 19 sigurleikjum liðsins.

Hún var með 20.9 stig, 9,8 fráköst og 8,4 stoðsendingar að meðaltali í heimaleikjum Haukaliðsins 2005-06 og tímabilið á eftir var Helena með 20,8 stig, 6,9 fráköst og 9,7 stoðsendingar í leik en þá spilaði hún aðeins 26,5 mínútur í leik.

Síðasta tap Helenu á heimavelli í deildarkeppninni kom í fyrsta heimaleik liðsins haustið 2005 þegar liðið tapaði 70-82 á heimavelli á móti Grindavík. Það var eina deildartap Haukaliðsins það tímabil, hvort sem var á heimavelli eða útivelli.


Tengdar fréttir

Haukakonur Lengjubikarmeistarar eftir sigur á Keflavík

Haukakonur urðu í dag Lengjubikarmeistarar 2015 eftir að hafa lagt Keflavík að velli í úrslitum á Selfossi 70-47. Náðu þær forskotinu strax í fyrsta leikhluta og voru komnar með átján stiga forskot í hálfleik.

Körfuboltakvöld: Helena hefur allt

Strákarnir í Dominos körfuboltakvöldinu á Stöð 2 Sport skoðuðu frammistöðu Helenu Sverrisdóttur og Margrétar Köru Sturludóttur í Dominos-deild kvenna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×