Enski boltinn

Geir eftirlitsmaður á leik Manchester City í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson,
Geir Þorsteinsson, Vísir/Anton
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, er út í Manchester þar sem hann hefur eftirlit með leik í Meistaradeildinni í kvöld.

Geir er eftirlitsmaður á leik enska liðsins Manchester City og spænska liðsins Sevilla í 3. umferð D-riðils Meistaradeildarinnar en leikurinn fer fram á Etihad-leikvanginum.

Liðin tvö eru jöfn að stigum í 2. og 3. sæti riðilsins hafa bæði þrjú stig eftir tvo leiki og þremur stigum færra en topplið Juventus sem hefur fagnað sigri á móti þeim báðum.

Manchester City á enn eftir að ná í stig á heimavelli í Meistaradeildinni á þessu tímabili en liðið vann útisigur á þýska liðinu Borussia Mönchengladbach í síðasta leik sínum.

Dómari leiksins í kvöld er Hollendingurinn Bas Nijhuis en eftirlitsmaður dómara er Ungverjinn Sándor Piller.

Geir er svokallaður UEFA Delegate og hefur almenna yfirumsjón með að allt í kringum leikinn gangi vel fyrir sig. Geir hefur fengið mikið að flottum leikjum undanfarin ár og starf kvöldsins er því ekkert nýtt fyrir hann.

Manchester City getur komið sér í mjög góða stöðu með sigri í leiknum en City-liðið hefur oft verið í erfiðleikum með að ná eins góðum úrslitum í Meistaradeildinni og í ensku úrvalsdeildinni.

Leikur Manchester City og Sevilla verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×