Enski boltinn

Walcott: Sigurinn á Bayern var ekki heppni heldur skilaboð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Theo Walcott er ánægður með lífið þessa dagana.
Theo Walcott er ánægður með lífið þessa dagana. vísir/getty
Theo Walcott, framherji Arsenal, segir leikmenn liðsins fulla sjálfstraust eftir frábæran sigur á Bayern München í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.

Arsenal hefur verið í miklu stuði í undanförnum leikjum, en það er búið að vinna þrjá í röð í öllum keppnum, skora átta mörk og fá ekkert á sig.

Liðið er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og mætir Everton á laugardaginn. Walcott telur að Arsenal geti farið alla leið og unnið deildina haldi það svona áfram.

„Í Meistaradeildinni spilarðu á móti þeim bestu og Bayern er svo sannarlega heimsklassa lið. En við sýndum hversu góðir við erum,“ segir Walcott í viðtali við Sky Sports.

„Sjálfstraustið flæðir í gegnum liðið og það sést. Úrslitin sýna það líka. Ef við höldum svona áfram er aldrei að vita hvernig þetta endar. Við lítum mjög vel út.“

„Þessi úrslit eru engin heppni. Við þurfum bara að halda áfram svona. Við viljum að lið óttist okkur. Við viljum senda út skilaboð og vonandi gerðum við það á þriðjudagskvöldið,“ segir Theo Walcott.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×