Menning

Myndin er partur af sögu mannréttinda á Íslandi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Persónurnar eru það áhugaverðasta í myndinni og atorka þeirra, að sögn Höllu Kristínar.
Persónurnar eru það áhugaverðasta í myndinni og atorka þeirra, að sögn Höllu Kristínar. Vísir/Anton
„Myndin er partur af því að halda til haga lærdómsríkri sögu mannréttinda á Íslandi. Það eru komnar upp kynslóðir sem muna ekki eftir kvennaframboðunum,“ segir Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona um heimildarmynd sína Hvað er svona merkilegt við það?

Halla Kristín kveðst hafa verið með myndina bak við eyrað frá árinu 2009 en aðalmyndatökurnar hafi farið fram 2013.

„Ég hef unnið mikið með Unu Lorenzen sem er íslensk en býr í Kanada og er flinkur hreyfimyndagerðarmaður. Við lögðumst í mikla rannsóknarvinnu við að finna myndefni í opinberum söfnum og einkasöfnum og líka filmusafni sjónvarpsins. Reyndum að búa til eitthvað úr því sem til var og svo gerðum við litlar senur sem var ætlað að sýna tíðarandann þannig að það eru leikarar í myndinni þó að hún sé heimildarmynd. Ekki er hægt að fara í tímavél aftur til fortíðar til að taka upp efni svo því verður að bjarga með öðrum hætti.“

Það áhugaverðasta við efnið segir Halla Kristín vera persónurnar í myndinni og atorku þeirra.

„Krafturinn er svo mikill enda ollu kvennaframboðin straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum, bæði til skamms og langs tíma.

Árið 1983, þegar þau komu fyrst fram, voru þrjár konur á Alþingi en eftir kosningarnar urðu þær níu, svo það varð 200% vöxtur yfir nótt. Framboðin lögðu grunninn að ýmsu sem við búum við í dag og teljum sjálfsagt. Myndin endar í nútímanum þannig að við förum vítt og breitt um sviðið.“

Hvað er svona merkilegt við það? hlaut Einarinn, aðalverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar, í vor og keppti í flokknum Besta norræna heimildarmyndin á Nordisk Panorama í september.

Áður hafði Halla Kristín gert myndina Konur á rauðum sokkum.

„Þegar Rauðsokkahreyfingin var lögð niður var byrjað að tala um Kvennaframboðið,“ segir hún.

„Ég var byrjuð að setja mig inn í það svo það lá beint við að halda áfram og taka þennan kafla sem við erum að frumsýna núna í Sambíóunum.“

Kitchen Sink Revolution - Trailer from Krumma films on Vimeo.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.