Fótbolti

Ronaldo gengur ekkert að skora úr aukaspyrnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo komst ekki á blað frekar en annar leikmaður í París í gærkvöldi þegar PSG og Real Madrid skildu jöfn, markalaus, í Meistaradeildinni.

Ronaldo fékk nokkur góð færi til að skora auk þess sem hann nýtti ekki tvær aukaspyrnur sem hann fékk rétt fyrir utan teig Parísarliðsins.

Það ætti þó ekki að koma neinum á óvart að Ronaldo skoraði ekki úr aukaspyrnunum því hann virðist ekki lengur geta skorað úr aukaspyrnum.

Þessi magnaði þrítugi Portúgali breytti aukaspyrnufræðunum og skoraði nánast að vild úr þeim lengi á sínum ferli, en nú er mikil stífla í gangi.

Goal.com tekur saman að Ronaldo er aðeins búinn að skora úr tveimur af síðustu 88 aukaspyrnum. Bent er á að Christian Eriksen, miðjumaður Tottenham, skoraði úr tveimur í sama leiknum gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Bosníumaðurinn Miralem Pjanic, leikmaður Roma, er sá besti í dag þegar kemur að skora úr aukaspyrnum, en hann er búinn að skora úr fjórum tilranum af átta bara á þessari leiktíð.

Á meðan Pjanic er að skora úr 50 prósent tilrauna sinna á þessari leiktíð er Ronaldo aðeins búinn að skora úr 22 prósent af síðustu 88 tilranum sínum. Pjanic þyrfti að klúðra næstu 162 aukaspyrnum til að jafna þá tölfræði.

Spyrnurnar hans Ronaldo í gærkvöldi má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×