Skoðun

Áfangasigur eða hetjudauði – um valkosti í stjórnarskrármálinu í mars 2013

Árni Páll Árnason skrifar
Við hófum merkilega lýðræðistilraun með breytingaferli á stjórnarskrá með þátttöku þjóðarinnar á síðasta kjörtímabili. Þessi tilraun hefur vakið athygli um allan heim og er enn grunnur hugmynda um breytingar. Í umræðu undanfarið hefur borið á því að aðstæðum í lok síðasta kjörtímabils sé lýst þannig að þáverandi stjórnarflokkar hafi haft í hendi sinni að samþykkja fullbúna stjórnarskrá. Svo var ekki.

Ég kom að stjórnarskrármálinu sem nýr formaður Samfylkingarinnar undir lok síðasta kjörtímabils þegar nokkrar vikur voru eftir af þingi. Málið var þá ennþá í meðferð í þingnefnd en framundan var að freista þess að koma því heilu í höfn.

Þingstuðning skorti

Strax var ljóst að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru ekki tilbúnir til samninga um afgreiðslu málsins í heild og höfðu til þess sterka stöðu vegna þess hversu stutt var í þinglok og kosningar. Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að tala málið í kaf og töldu það vænlegt til vinsælda í aðdraganda kosninga. Það flækti málið enn frekar, enda þarf ný stjórnarskrá samþykki tveggja þinga og þeir flokkar sem voru að mælast með meirihlutafylgi voru harðir á móti málinu.

Í byrjun mars 2013 var endanlega ljóst, eftir samtöl við þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og fleiri, að ekki væri fær leið til afgreiðslu málsins í heild. Málið var þá fyrst að koma fullbúið frá þingnefnd til 2. umræðu og þá voru sjö þingfundadagar eftir samkvæmt starfsáætlun þingsins. Eina leiðin sem var fræðilega fær til að afgreiða málið var að beita því ákvæði þingskapa sem sviptir minnihlutann á Alþingi málfrelsi og bindur enda á umræðu. Forsenda beitingar þess er að umræða hafi dregist úr hófi, en 2. umræða um málið var sem fyrr segir rétt að hefjast. Jafnvel þótt skilyrðin hefðu verið uppfyllt, var ekki meirihluti þingmanna fyrir beitingu þessa ákvæðis til að koma stjórnarskránni í heild í gegn. Við margreyndum síðar að ná meirihluta til að koma í gegn með hörðu afmarkaðri breytingum, en það tókst ekki heldur. Það var því engin leið fær.

Skot í fótinn?

Þegar ég tjáði mig um það að ekki ynnist tími til að ljúka málinu í heild var ég ekki að segja neinar fréttir, heldur einfaldlega að greina frá augljósri staðreynd. Var ég að skjóta mig í fótinn og gera mér samninga um framhald málsins erfiðari? Nei, því stjórnarandstaðan var fullkomlega meðvituð um það hvað tímanum leið og um þá óeiningu sem var innan stjórnarmeirihlutans um afgreiðslu málsins. Klukkan gekk á okkur, ekki þá.

Eftir á að hyggja voru það mistök af mér að greina frá þessari staðreynd opinberlega að félögum mínum óviðbúnum og kalla þannig svikabrigsl yfir mig og Samfylkinguna. En miðað við stöðuna blasti ekkert annað við en að málið myndi tapast í þingsal. Það var gríðarlega mikilvægt að halda málinu á lífi og grafskrift þess mátti ekki verða málþóf á þingi, án nokkurs fyrirheits um framhald á nýju kjörtímabili. Hvernig svo sem þessi staða varð til leit ég svo á að formaður Samfylkingarinnar bæri ábyrgð á að koma málinu í farveg. Ég tók alvarlega umboðið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 um að þjóðin vildi að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs og taldi mig skuldbundinn að virða þann vilja, óháð örlögum málsins í þessu tímahraki. Ef við hefðum haldið áfram að þrjóskast við hefði tækifærið til að byggja málinu framtíð á nýju kjörtímabili farið forgörðum.

Framhald gert mögulegt

Með samþykkt nýs tímabundins breytingaákvæðis við stjórnarskrána, sem við formenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar gerðum tillögu um, tókst að gefa fyrirheit um frekari vinnu við stjórnarskrárbreytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Í krafti þess ákvæðis var eftir kosningar samið við nýjan stjórnarmeirihluta um áframhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar og nú hillir mögulega undir samkomulag fulltrúa allra flokka um ákvæði um þjóðareign á auðlindum, þjóðaratkvæðagreiðslur, fullveldi og náttúruvernd. Þessi vinna hefði aldrei átt sér stað á miðju kjörtímabili, ef ekki hefði verið vegna þess að okkur tókst að búa til þrýsting með samþykkt nýs breytingaákvæðis undir lok síðasta kjörtímabils.

Það hefur verið nefnt sem mistök af minni hálfu að halda málinu ekki til streitu og láta reyna á vilja meirihluta þings til að binda enda á umræðu, taka málfrelsið af minnihlutanum og ganga til atkvæða um málið. Ég er ósammála því. Slík atburðarás hefði leitt okkur til ósigurs, því við höfðum ekki nægan stuðning til að tryggja framgang slíkrar tillögu. Stjórnarmeirihlutinn hefði þá farið tvístraður til kosninga, með ósigur í þessu stóra máli ríkisstjórnarinnar í farteskinu og án þess að nokkur önnur mál fengjust afgreidd. Stjórnarsamstarfið við VG hefði verið í uppnámi. Það er skrýtinn liðsforingi sem teflir liði sínu í öruggan ósigur og hetjudauða í stærsta málinu nokkrum vikum fyrir kosningar, í stað þess að leita eftir áfangasigri.

Má beita öllum meðölum?

Til að taka af allan vafa hafði ég rótgróna og djúpstæða andstöðu gagnvart því að svipta minnihlutann málfrelsi í jafn stóru máli og hér um ræðir. Ákvæði þingskapa um að taka málfrelsið af minnihlutanum hefur ekki verið beitt nema í undantekningartilvikum og aldrei á síðustu áratugum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa setið í ríkisstjórn drýgstan hluta lýðveldistímans og vinstrihreyfingin á Íslandi hefur reitt sig á aðgang að ræðustól Alþingis til að hafa áhrif á framgöngu meirihlutans. Þannig töfðum við fjölmiðlalögin og þannig komum við í veg fyrir að vatnið væri einkavætt á sínum tíma. Ég hef alla tíð gagnrýnt harkalega það hráa meirihlutaræði sem hefur einkennt íslensk stjórnmál og talað fyrir auknum áhrifum minnihlutans og meðal annars rétti hans til að vísa málum í þjóðaratkvæði. Á meðan að ég var í meirihluta gagnrýndi ég oft félaga mína í meirihlutanum fyrir að ganga of hart fram gagnvart minnihlutanum og aflaði mér ekki alltaf vinsælda með því.

Prófsteinninn á lýðræðisviljann er hins vegar ekki hvernig manni líður þegar maður er sjálfur borinn atkvæðum, heldur hvað maður gerir þegar maður er í aðstöðu til að bera aðra atkvæðum. Það er freistandi að sannfæra sjálfan sig um að í lagi sé að ganga hart fram í þetta eina skipti, því maður viti sjálfur að maður hefur rétt fyrir sér. En nákvæmlega þannig verður yfirgangurinn samtalinu yfirsterkari. Ég er lýðræðisjafnaðarmaður af hugsjón og hef aldrei getað samrýmt það þeirri hugsjón að taka grundvallarrétt af minnihlutanum, sama hversu sannfærður ég er um að ég hafi rétt fyrir mér. Markmið lýðræðisjafnaðarmanna á að vera að auka rétt minnihlutans, ekki að grafa undan honum. Ekki bara stundum heldur alltaf.

Skelfilegt fordæmi

Ef við hefðum farið áfram með stjórnarskrármálið, með einhvers konar hótun um afnám málfrelsis minnihlutans í farteskinu, hefðum við alltaf lent á vegg því stuðningurinn var ekki fyrir hendi. En það sem verra er: Við hefðum skapað fordæmi sem ekki hefði verið aftur tekið og veikt stöðu íslenskrar vinstri hreyfingar næstu áratugina. Við hefðum glatað þeim neyðarhemli sem stjórnarandstaðan hefur ítrekað nýtt á þessu kjörtímabili. Ný ríkisstjórn hefði getað komið að málum með öðrum hætti og getað keyrt öll mál í gegn. Það væri þá að öllum líkindum búið að samþykkja lög um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefði tryggt einkaeignarrétt að fiskveiðiheimildum, búið að lækka varanlega auðlindagjöld langt umfram það sem þegar hefur verið gert, búið að gefa völdum útgerðum makrílkvótann, búið að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu með bindandi hætti og búið að rústa rammaáætlun og leggja af stað í allar átta virkjanirnar sem Jón Gunnarsson hefur reynt að þjösna í gegnum þingið. Við hefðum þá greitt hátt verð fyrir engan árangur.

Lýðræðistilraunin heldur áfram

Samfylkingin getur verið stolt af málafylgju sinni þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum. Við hófum merkilega lýðræðistilraun með þjóðfundum, skipan stjórnlaganefndar og með beinni kosningu til stjórnlagaþings, síðar stjórnlagaráðs og lögðum mikið afl í að koma þeirri vinnu áfram til afgreiðslu á Alþingi. Það tókst ekki að ljúka málinu í heild. Það var vegna andstöðu annarra, ekki vegna uppgjafar okkar. Þvert á móti höfum við haldið allri þessari vinnu og öllum þessum hugmyndum til haga í þeirri vinnu að stjórnarskrárbreytingum sem síðan hefur átt sér stað. Þannig virðum við umboðið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni frá 20. október 2012 og berjumst áfram fyrir stjórnarskrárbreytingum með þátttöku þjóðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×