Fótbolti

Stuðningsmenn Bayern mótmæla miðaverði Arsenal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal og Man. Utd mótmæla miðaverðinu fyrir utan Emirates á dögunum.
Stuðningsmenn Arsenal og Man. Utd mótmæla miðaverðinu fyrir utan Emirates á dögunum. vísir/getty
Stuðningsmenn þýska liðsins Bayern München eru æfir út í Arsenal og þeir saka enska liðið um græðgi.

Stuðningsmenn Bayern þurfa að greiða rúmlega 12 þúsund krónur fyrir miða á leik síns liðs gegn Arsenal í Meistaradeildinni. Það er talsvert meira en þeir eru vanir að greiða.

Stuðningsmennirnir munu mótmæla á táknrænan hátt með því að láta ekki sjá sig í stúkunni fyrr en fimm mínútur verða liðnar af leiknum.

Arsenal er með dýrasta miðaverðið hjá öllum félögum á Englandi og finnst mörgum nóg til komið. Sérstaklega í ljósi þess að ensku félögin voru að græða mikið á nýjum sjónvarpssamningi. Það var því rúmt svigrúm til þess að lækka miðaverð en það gerði Arsenal ekki.

Þess ber að geta að ódýrasti ársmiðinn á leiki Bayern kostar 27 þúsund krónur og því skal svo sem engan undra að stuðningsmennirnir súpi hveljur yfir þessu miðaverði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×