Menning

Ekki vænlegt til árangurs að taka teikniblokkina með ofan í laugina

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hér má sjá Rán með nokkrar af teikningunum sem verða til sýnis.
Hér má sjá Rán með nokkrar af teikningunum sem verða til sýnis. Vísir/Stefán
Í dag opnar teiknarinn Rán Flygen­ring sýningu í Spark design space þar sem hún sýnir afrakstur liðins sumars, um 150 teikningar sem hún vann á ferð um landið. Viðfangsefni margra teikninganna er sund- og baðmenning á Íslandi.

„Þetta eru skissur og smásögur héðan og þaðan. Svona stemningsmyndir með fókus á bað- og sundmenningu,“ segir Rán. Við tilefnið verður einnig sýnd stutt heimildarmynd eftir kvikmyndagerðarmanninn Sebastian Ziegler um tilurð verkefnisins.

„Verkefnið svona sprettur upp úr því að ég fer mikið í sund,“ segir hún og hlær. „Sundið er svo íslenskt og mikið af efni sem er hægt að vinna með. Hvernig maður á að gera þetta allt saman. Þetta er hreyfing, það þarf að þrífa sig og svo er sundlaugin líka einhvers konar staður til að hittast og spjalla.“

Teikningarnar vann Rán flestar á bakka sund- og náttúrulauga enda ekki sérlega vænlegt til árangurs að hætta sér ofan í með teikniblokkina. „Það er svona eins og þegar maður missir brauðsneið þá dettur hún alltaf á hliðina þar sem áleggið er. Þegar maður fer ofan í með teiknibók þá endar það bara á einn veg,“ segir hún og hlær.

Sýningin verður opnuð í Spark design space á Klapparstíg í dag klukkan 17.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.