Fótbolti

Velgengni Martial kemur þjálfara og fyrirliða Monaco ekkert á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial.
Anthony Martial. vísir/epa
Anthony Martial, Frakkinn ungi sem Manchester United keypti frá Monaco fyrir fúlgur fjár, hefur farið frábærlega af stað með liðinu og skorað fjögur mörk í sex leikjum.

Hann komst nálægt því að skora fyrir United í gærkvöldi þegar liðið vann sinn fyrsta Meistaradeildarleik á leiktíðinni á móti Wolfsburg á heimavelli.

Martial sló í gegn strax í fyrsta leik með því að skora glæsilegt mark á móti Liverpool, en mörgum hefur komið á óvart hversu fljótur hann var að koma sér inn í liðið hjá United. Ekki fyrirliða Monaco.

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Anthony er virkilega hæfileikaríkur,“ segir Jérémy Toulalan, fyrirliði Monaco.

„Hann er góður strákur sem á eftir að slá í gegn í Manchester. Það var erfitt fyrir hann að hafna tilboði sem þessu. Ég er ánægður fyrir hans hönd.“

Martial kom til Monaco frá Lyon og skoraði 15 mörk í 70 leikjum áður en hann var keyptur til Manchester United.

Leonardo Jardim, þjálfara Monaco, kemur velgengni stráksins unga heldur ekkert á óvart frekar en fyrirliða Monaco-liðsins.

„Hann er bara virkilega góður, ungur leikmaður. Þegar menn eru í góðum liðum eins og Monaco þar sem unnið er með þig er auðvelt að bæta sig og síðan fara til liðs eins og Manchester United,“ segir Leonardo Jardim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×