Innlent

Sigmundur Davíð segir engan hafa misskilið orð sín um SDG í New York

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/EPA

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, nýta tækifærin til þess að snúa út úr orðum sínum. Það hafi hann gert í kjölfar ræðu ráðherrans á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í ár og sömuleiðis fyrir ári síðan. Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag.

Katrín vildi fá nánari útlistun á losunarmarkmiðum Íslands í ljósi orða forsætisráðherra í New York. Svo skemmtilega vill til að upphafsstafir í nafni forsætisráðherrans er einmitt skammstöfunin fyrir Sustainable Development Goals (SDG) sem er enski titillinn yfir sjálfbærnimarkmiðin sem unnið er með í stefnu Sameinuðu þjóðanna.

Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni í New York fyrir rúmri viku að Íslendingar hefðu „nýlega heitið því að draga úr gróðurhúsalofttegunum um 40 prósent fyrir árið 2030.“ Greip Árni boltann á lofti og fagnaði ummælum ráðherra og stefnubreytingu til hins betra í yfirlýsingu frá Náttúruverndarsamtökum. Marga grunaði þó að Sigmundur Davíð væri að vísa í þátttöku Íslands í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins sem reynsti raunin. Það kom þó ekki fram í ræðunni.

Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands telur að Ísland eitt og sér geti vel lækkað losun gróðurhúsalofttegunda um fjörutíu prósent.Vísir/Vilhelm

Menn hlusta þegar Íslendingar tala

„Það var enginn slíkur misskilningur á þessum fundi Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Sigmundur Davíð á Alþingi í dag. Allir hafi vitað um hvað málið snerist. Hins vegar hafi menn heima á Íslandi séð sér leik á borði og snúið út úr orðum ráðherra. Er ljóst að Sigmundur Davíð átti við Árna Finnsson og benti á að hann hefði gert slíkt hið sama á leiðtogafundinum í fyrra. 

Þá hvatti Sigmundur Davíð  „þjóðir heims til að ganga til liðs við alheimsbandalag á sviði jarðhitanýtingar,“ og benti á að Ísland stefndi á framtíð án jarðefnaeldsneytis. Yfirlýsingunni fögnuðu Náttúruverndarsamtök Íslands og sögðu ræðuna marka stefnubreytingu „sem felur í sér að Ísland muni ekki leyfa olíu- eða gasvinnslu á Drekasvæðinu.“ 

Sigmundur Davíð minnti á það, í ræðustól Alþingis í dag, að engir stæðu Íslendingum snúningum þegar kæmi að endurnýjanlegri orku.

„Þess vegna hlusta menn þegar Íslendingar ræða um þessi mál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×