Körfubolti

Spánn Evrópumeistari í þriðja sinn

Tómas þór Þórðarson skrifar
Litháar réðu ekkert við Pau Gasol frekar en önnur lið á mótinu.
Litháar réðu ekkert við Pau Gasol frekar en önnur lið á mótinu. vísir/epa
Spánn varð Evrópumeistari í körfubolta karla í dag með því að leggja sterkt lið Litháen að velli, 80-62, í úrslitaleiknum í Lille.

Eins og tölurnar gefa til kynna var spænska liðið miklu betri aðilinn í leiknum, en það var 19-8 yfir eftir fyrsta leikhluta.

Pau Gasol, miðherji Chicago Bulls í NBA-deildinni, fór enn eina ferðina á kostum í útsláttarkeppnini, en hann skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í leiknum.

Hann skoraði 40 stig í undanúrslitunum á móti Frakklandi, 27 á móti Grikklandi þar á undan og 30 stig á móti Póllandi í 16 liða úrslitunum.

Þetta er þriðji Evrópumeistaratitill Spánar í sögunni, en liðið er búið að vinna þrjú af síðustu fjórum Evrópumótum. Það missti titilinn til Frakklands fyrir tveimur árum.

Sergio Scariolo, ítalskur þjálfari spænska liðsins, er búinn að stýra liðinu allan þennan tíma og Gasol taka þátt í öllum mótunum.

Þetta er enn fremur í 12. sinn sem Spánn kemst á pall á Evrópumótinu, en liðið á einnig að baki sex silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×