Fótbolti

FIFA hafnar beiðni Barcelona

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Arda Turan verður að láta æfingarnar duga áfram næstu mánuðina.
Arda Turan verður að láta æfingarnar duga áfram næstu mánuðina. Vísir/Getty
Samkvæmt spænskum miðlum hefur Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hafnað beiðni Barcelona um að fá að skrá Arda Turan í leikmannahóp sinn eftir að Rafinha meiddist á dögunum.

Rafinha sem er brasilískur landsliðsmaður sleit krossband á dögunum og verður fyrir vikið ekki með það sem eftir lifir tímabilsins. Segja reglur spænsku úrvalsdeildarinnar svo að félög geti fengið að breyta skráningu meiðist leikmaður í lengri tíma en fimm mánuði.

Barcelona er hinsvegar í félagsskiptabanni eftir að upp komst að félagið hefði fengið til liðs við sig knattspyrnumenn undir 18 ára aldri sem er bannað nema að það uppfylli ákveðin skilyrði.

Þrátt fyrir það gekk félagið frá kaupunum á Turan og Aleix Vidal í sumar en getur ekki skráð þá í leikmannahóp liðsins fyrr en í janúar.

Sótti Barcelona um að fá að beita þessari undantekningu til að skrá Turan sem er tyrkneskur landsliðsmaður en FIFA synjaði því á þeim grundvelli að félagið mætti ekki skrá nýja leikmenn fyrr en í janúarglugganum þegar félagsskiptabanni þeirra væri lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×