Innlent

Ríkið sýknað af kröfu Tony Omos

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum við innanríkisráðuneytið vegna málsins árið 2013.
Frá mótmælum við innanríkisráðuneytið vegna málsins árið 2013. Vísir/Stefán
Hæstiréttur Íslands hefur sýknað ríkið af kröfum Tony Omos um að málsmeðferð hælisumsóknar hans verði endurtekin. Dómurinn segir Omos ekki hafa fært fram haldbær rök fyrir því að starfsmenn innanríkisráðuneytisins hafi ekki gætt að hlutlægnisskyldu og jafnræði við meðferð máls hans.

Omos hafði krafist þess að úrskurður innanríkisráðuneytisins frá 9. september 2013 og að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 2012 um að hælisumsókn hans yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi, yrði ógiltur.

Þá hélt hann því fram að sex mánaða frestur til endursendingar hans til Sviss, samkvæmt Dyflinarreglugerðinni, og því bæri að taka umsóknina til efnismeðferðar. Hæstiréttur taldi hins vegar að svo væri ekki.

Málskostnaður var felldur niður og gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Þar á meðal þóknun lögmanns Omos sem eru 600 þúsund krónur.

Omos, sem er nígerískur ríkisborgari, hafði áður tapað máli sínu í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Var á leið til Kanada

Tony Omos kom hingað til lands frá Kaupmannahöfn í október 2011. Þá framvísaði hann vegabréfi í eigu annars manns. Daginn eftir óskaði hann eftir hæli hér á landi. Við athugun kom í ljós að Omos hafði sótt um hæli í Sviss árið 2008. Því var send beiðni til Sviss, samkvæmt Dyflinarreglugerðinni, um að hann yrði sendur þangað og var það samþykkt af þarlendum yfirvöldum.

Samkvæmt stefnunni flúði Omos frá Nígeríu árið 2001 dvaldi hann í Austurríki í fimm eða sex ár. Árið 2008 flutti hann til Sviss og var þar í fjóra til fimm mánuði. Eftir það bjó hann í Ítalíu í eitt ár áður en hann fór aftur til Nígeríu.

Þá segir að hann hafi þá áttað sig á því að þar væri honum ekki óhætt lengur og því hefði hann flúið þaðan. Hann var á leið til Kanada þegar hann var stöðvaður í Leifsstöð.


Tengdar fréttir

Omos áfrýjar til Hæstaréttar

Tony Omos hefur áfrýjað máli sínu gegn Útlendingastofnun og íslenska ríkinu til Hæstaréttar Íslands.

Tony Omos og Gísli Freyr ná sáttum

Sátt náðist í máli Tony Omos gegn Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×