Menning

Sneri við um leið og ég sá brekku

Magnús Guðmundsson skrifar
Íslensku listamennirnir fyrir framan Quartair galleríið í Den Haag.
Íslensku listamennirnir fyrir framan Quartair galleríið í Den Haag.
Í dag opna 8 íslenskir myndlistarmenn sýninguna ,Reykjavík Stories í Quartair galleríinu í Den Haag í Hollandi. Sýningarstjóri er Tim Junge og hann hefur haft veg og vanda af undirbúningi verkefnisins. Finnur Arnar er einn listamannanna sem taka þátt í sýningunni og hann segir að Quartair galleríið eigi talsverða sögu af því að vinna með Íslendingum.

„Listamennirnir sem taka þátt í verkefninu að þessu sinni eru auk mín Jón Óskar, Hulda Hákon, Jóhann Ludwig Torfason, Ragnhildur Jóhanns, Guðmundur Thoroddsen, Sindri Leifsson og Dodda Maggý. Verk okkar allra á sýningunni tengjast með einum eða öðrum hætti Reykjavík. Höfuðborg sem við þekkjum og upplifum hvert með sínum hætti og höfum kynnst misvel og lengi.

Það er mikil hefð fyrir samstarfi á milli landanna í myndlist enda hafa gríðarlega margir íslenskir myndlistarmenn stundað nám í Hollandi og fundið sig vel. Ekki eru það fjöllin sem toga okkur hingað því ég hef nú ekki séð nema eina brekku hérna í borginni enn sem komið er. Að sjálfsögðu sneri ég snarlega við og fann mér aðra leið að mínum áfangastað,“ segir Finnur og hlær.

Finnur bætir við að það séu líka ákveðin hugmyndafræðileg tengsl á milli Quartair gallerísins og Nýló en bæði eru þessi gallerí í raun listamannarekin. Þar sem Tim Junge býr heima á Íslandi og hefur þar verið maðurinn á bak við art 365 og þekkir einnig vel til Nýló fannst honum tilvalið að efla samstarfið þarna á milli. Verkin á sýningunni eru í raun jafn ólík og listamennirnir eru margir; það eru þarna myndbandsverk, ljósmyndir, málverk, skúlptúrar og Sindri Leifsson ætlar að performera við opnunina.“

Í tilefni sýningarinnar kemur út vegleg bók um sýninguna og verk listamannanna þar sem Markús Þór Andrésson skrifar megintexta en Bergdís Ellertsdóttir sendiherra ritar formála. Hún mun einnig opna sýninguna formlega. Finnur bendir á að þau hafi fengið styrk frá Reykjavíkurborg til þess að standa straum af kostnaði við útgáfuna. „Við erum ákaflega þakklát fyrir stuðninginn og vonum að það geti orðið framhald á samstarfinu. En nú er allt tilbúið og við að fara á listviðburð á ströndinni og hér er enn sumar og sól. Það verða s.s. léttklæddir listamenn á ströndinni – það er eitthvað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.