Innlent

Ástarævintýrið hafið: Traust vantar á milli fjárfesta og kvikmyndabransans

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Eldhuginn Baltasar Kormákur hreif áhorfendur með sér inn í heim fjárfestinga og kvikmyndagerðar á málþingi á vegum RIFF.
Eldhuginn Baltasar Kormákur hreif áhorfendur með sér inn í heim fjárfestinga og kvikmyndagerðar á málþingi á vegum RIFF. Vísir/GVA
„Samtalið milli fjárfesta og kvikmyndagerðarmanna er mjög takmarkað. Þetta er óþroskað samband, eins og unglingar að byrja saman. Hvorugur veit hvernig á að nálgast hinn,“ sagði Baltasar Kormákur Samper á málþingi á vegum Reykjavík International Film Festival, RIFF, í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift þingsins var spurningin: „Er íslensk kvikmyndagerð góð fjárfesting?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, var fundarstjóri en þátttakendur í pallborðsumræðum auk Baltasars voru Heiðar Guðjónsson, framleiðandi Svartur á leik og fjárfestir, Agnes Johansen framleiðandi hjá RVK studios, Grímar Jónsson framleiðandi Hrúta, Gísli Gíslason framleiðandi og Rob Aft, fjárfestinga- og dreifingarráðgjafi.

Mikil bjartsýni og jákvæðni varðandi framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar einkenndi málþingið; það nefndu bæði Þorgerður Katrín og áhorfendur úr sal.

„Hardcore“ nálgun það sem íslensk kvikmyndagerð þarf

„Fjárfesting í kvikmynd er bara eins og hver önnur fjárfesting,“ sagði Gísli Gíslason, lögfræðingur og framleiðandi kvikmynda á borð við Reykjavík Whale Watching Massacre og Vonarstræti. „Sumar ganga og sumar ekki. Maður þarf að taka sénsinn og hafa úthald og þol í að taka þátt í svona verkefni.“ Hann tók þátt í framleiðslu á nokkrum íslenskum myndum sem reyndust ekki arðbærar áður en hann framleiddi kvikmyndina Vonarstræti sem sló í gegn.

Heiðar Guðjónsson, framleiðandi og fjárfestir, var með skýra sýn á málefnið.Vísir/GVA
Grímar sagði vanta að fjárfestar kæmu snemma inn í verkefni, þegar verkefni er enn á hugmyndastigi. Þá væru fjárfestar vissulega að taka meiri áhættu en ættu þá von á meiri arði.

Þegar fjárfest er í kvikmynd líta fjárfestar á það hvort um söluvænlega mynd sé að ræða sagði Heiðar en hann framleiddi Svartur á leik en tekjur af henni reyndust sjötíu milljónir á Íslandi og sextíu aukalega þegar myndin var seld erlendis. „Ég tel persónulega að ef við ætlum að efla kvikmyndagerð og ef við ætlum að byggja upp atvinnustarfsemi þá sé betra að reiða sig á fjármagn frá einkaaðilum heldur en hinu opinbera.“ Hann benti á að fyrir fjárfesti eins og sig sem er telst ekki til ástríðufjárfesta í kvikmyndabransanum skipti mestu máli að fá fjármagnið tilbaka.

Málþingið fór fram í Norræna húsinu. Hér sést Þorgerður Katrín hlusta af athygli á framleiðandann Grímar Jónsson.Vísir/GVA
Baltasar Kormákur fagnaði viðhorfi Heiðars. „Þetta er nákvæmlega þessi nálgun sem við þurfum. Það er þetta hardcore: Er hægt að fá pening inn í verkefnið og er hægt að fá peninginn tilbaka,“ sagði Baltasar. Hann átti mjög auðvelt með að svara spurningunni og yfirskrift málþingsins.

„Svarið er einfalt já. Hún getur verið mjög arðbær fjárfesting.“ Everest, nýjasta kvikmynd Baltasars hefur halað inn tæplega hundrað milljónum dollara á heimsvísu eins og staðan er í dag og enn á eftir að frumsýna myndina í nokkrum löndum.

Vantar traust á kvikmyndagerðarmenn

Baltasar sagðist hafa rekist á mikið af veggjum þegar hann tók að leita að fjármagni fyrir verkefnið Ófærð en tveir þættir af Ófærð verða sýndir á RIFF. „Við lentum í miklum ógöngum með bankakerfið vegna þess að þeir skilja þetta ekki,“ útskýrði leikstjórinn en mörg kvikmyndaverkefni lenda í vandræðum með sjóðstreymi því peningarnir eru fastir í samningum við aðila sem greiða aðeins eftir að myndin eða þættirnir eru komnir í sýningu. Hann sagði vanta traust í bankakerfið og traust af hálfu fjárfesta á kvikmyndagerðarmönnum.

„Við höfum ekki verið teknir alvarlega sem fjárfestingarkostur.“ Hann sagði ekkert gleðja sig meira en þegar fjárfestar græða peninga því að þá sé hægt að fara til þeirra aftur og sækja peninga fyrir fleiri kvikmyndum.

Laufey Guðjónsdóttir hjá Kvikmyndamiðstöð var áhorfandi í sal og lagði orð í belg. „Það er gegnumgangandi vandi að það trúir enginn og það eru svo fáir sem eru tilbúnir að setja sig inn í hugmyndir. Það er svo miklu auðveldara að koma að einhverju sem er áþreifanlegt. Það eru sérfræðingar með rosalega mikla listræna þekkingu sem verður að vera til staðar í hugmyndavinnunni og það verður að byggja þetta traust á milli þeirra og fjárfesta.“

Vælutónninn í kvikmyndagerðarmönnum verður að víkja

Baltasar var afdráttarlaus í ráðleggingum sínum til kvikmyndagerðarmanna en ljóst er að leikstjórinn hefur ekki byggt árangur sinn á skýjaborgum.

„Ekki biðja um peninga nema þú sért 99 prósent viss um að þú getir unnið þá tilbaka, ef líkurnar eru meiri en minni á að þú tapir peningum fjárfestanna er þetta einskis virði. Það mun bara búa til magasár og leiðindi.“ Hann sagði það besta en jafnframt það versta sem hann gat lent í að tapa peningum annarra.

Baltasar Kormákur er töffari frá toppi til táar. Vísir/GVA
„Ekki ætlast til þess að fólk sé tilbúið til að fjármagna draumana þína og tapa á því. Það verður að vera raunhæft plan og hugmynd á bakvið verkefnið. Mér finnst svolítill vælutónn stundum í kvikmyndagerðarmönnum. Svona „mig langar að gera kvikmynd, af hverju er fólk ekki til í að borga fyrir hana?“ Það er ekki sjálfsagt. Ef þú tekur pening bankamanna þá verðurðu að skila þeim,“ sagði Baltasar. Hann hefur lagt á sig mikla vinnu síðastliðin tuttugu ár til þess að komast á þann stað sem hann er í dag en hann seldi nýverið þáttaröðina Ófærð til Bandaríkjanna á 1,2 milljónir dollara en það eru 153 milljónir íslenskra króna.

Kvikmyndir á íslensku geta verið söluvænlegar

„Og ég er að tala um upprunalegu Ófærð – á íslensku. Þetta er alveg hægt. Það hefði engum grunað að við gætum selt Ófærð fyrir nokkrum árum en allt þetta vandamál með tungumál er að verða minna.“

Úr sal kom spurning hvað varðar tungumál, hvort það væri vænlegra til árangurs að búa til mynd á ensku ef kvikmyndagerðamaður vill fá erlenda fjárfesti inn í verkefnið. „Erlendir fjárfestar eru ekki að leita að nýrri Transformers mynd frá Íslandi. Það sem þeir eru að leita eftir eru gæði,“ sagði Rob Aft sem fylgst hefur með íslenskri kvikmyndagerð um nokkurt skeið. „Ef bestu gæðin fást með því að hafa myndina á íslensku gerðu hana þá á íslensku.“

Málþingið var nokkuð vel sótt.Vísir/GVA
Baltasar sagði geta verið meira „authentic“ eða ósvikið að gera íslenska mynd á Íslandi en að hins vegar snerist kvikmyndagerð að miklu leyti um að skapa kúltúr. „Tungumálið er mikils virði en það er ekki allt. Dansmyndir hafa ákveðin kúltúr og silent myndir, eru þær ekki líka kúltúr?“

Grímar, framleiðandi Hrúta sem hefur átt mikilli velgengni að fagna, til dæmis í Cannes, telur jákvætt svar við spurningu þingsins því háð að kvikmyndir fái grunnfjármögnun frá heimalandinu og því þurfi að stórauka framlög til Kvikmyndamistöðvar. Þegar grunnfjármögnun liggur fyrir sé hægt að leita til fjárfesta. „Án grunnfjármögnunar frá heimalandinu á viðkomandi verkefni ekki tækifæri til þess að sækjast eftir erlendri fjármögnun sem getur lyft verkefninu á nýjar hæðir.“

Allir þátttakendur í pallborðsumræðum voru sammála um að fjárfesting í kvikmyndum á Íslandi sé góð fjárfesting ef rétt er að henni staðið. „Ástarævintýrið er hafið,“ sagði Þorgerður Katrín með tilvísan í óreyndu unglingana hans Baltasars. „Er íslensk kvikmynd góð fjárfesting? Ég held að svarið sá já.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×