Körfubolti

Stórleikur Gasol gegn Frökkum | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gasol ropaði boltanum reyndar ekki út úr sér en hann gerði flest annað gegn Frökkum.
Gasol ropaði boltanum reyndar ekki út úr sér en hann gerði flest annað gegn Frökkum. vísir/getty
Spánverjinn Pau Gasol hefur spilað manna best á Evrópumótinu í körfubolta, EuroBasket, sem lýkur nú um helgina.

Gasol hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum, síðast gegn Frakklandi í undanúrslitunum í gær.

Gasol skoraði 40 stig, tók 11 fráköst og varði þrjú skot í fimm stiga sigri Spánar, 80-75, eftir framlengdan leik.

Gasol var sérlega öflugur í framlengingunni en í stöðunni 73-75 fyrir Frakkland tók Chicago Bulls-maðurinn yfir. Hann jafnaði metin í 75-75 með tveimur vítaskotum og skoraði svo sex síðustu stig Spánverja með troðslum á síðustu 49 sekúndum leiksins.

Frábær leikur hjá þessum 35 ára leikmanni sem hitti úr 12 af 21 skoti sínu utan af velli (57,1%) og 16 af 18 vítaskotum sínum.

Gasol tók fleiri vítaskot í leiknum en allt franska liðið en eftir leikinn kvartaði Rudy Gobert, miðherji Frakka, yfir því á Twitter að dómgæslan hefði verið Frakklandi óhagstæð en hann fékk sína fimmtu villu fyrir brot á Gasol þegar rúm mínúta var eftir af framlengingunni.

Gasol er raunar efstur á listanum yfir þá leikmenn sem hafa tekið felst vítaskot á EM að meðaltali í leik, eða 9,3. Sextíu af 74 vítaskotum hans hafa ratað rétta leið, eða 81,1%.

Gasol er ofarlega á lista í mörgum tölfræðiþáttum á EM. Hann er t.a.m. stigahæsti leikmaður mótsins með 25,6 stig að meðaltali í leik, og með flest varin skot að meðaltali í leik, eða 2,3. Aðeins fjórir leikmenn hafa tekið fleiri fráköst að meðaltali í leik en Gasol (8,4) og svo mætti lengi telja.

Myndband af helstu tilþrifum Gasol gegn Frökkum má sjá hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×