Körfubolti

Jón Arnór: Það er mikið af andlitum hérna sem ég þekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Valli
Jón Arnór Stefánsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu spila sinn fyrsta leik á Eurobasket á morgun þegar íslenska liðið mætir heimamönnum í Þýskalandi.

Íslenska landsliðið hefur eytt síðustu fimm dögum í Berlín en alvaran byrjar á morgun og Jón Arnór er spenntur.

„Þetta er loksins að byrja á morgun og maður er nú búinn að bíða svolítið lengi eftir þessu. Þetta er orðið mjög raunverulegt núna," segir Jón Arnór sem hefur gaman af því að vera á hóteli með öllum liðunum í riðli Íslands.

„Það er gaman að vera komnir inn á hótel og í kringum hin liðin. Þetta er þessi mótstemning sem maður hefur saknað svolítið síðan að maður var yngri þar sem allir eru á sama staðnum," segir Jón Arnór.

„Það eru allir mjög spenntir og það er brjálaður fiðringur í maganum í bland við stress og annað. Við erum bara að reyna að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir þennan leik," segir Jón Arnór.

Hann sjálfur þekkir marga af verðandi mótherjum íslenska liðsins á Eurobasket.

„Ég er búinn að hitta mjög mikið af strákum sem ég hef spilað með í gegnum tíðina og þá hef ég spilað á móti mörgum leikmönnum líka og þjálfurum. Það er fullt af liði sem maður þekkir sem er mjög gaman," segir Jón Arnór og bætir við:

„Það skapast mjög skemmtileg stemning í kringum svona mót. Ég fatta það líka í leiðinni hvað ég er búinn að vera lengi í þessu. Það er mikið af andlitum hérna sem ég þekki. Ég er orðinn þvílíkur reynslubolti greinilega," segir Jón Arnór og hlær.

Leikur Íslands og Þýskalands hefst klukkan 13.00 á morgun að íslenskum tíma og það verður fylgst með leiknum hér inn á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×