Körfubolti

Hörður: Allt mér að þakka að Haukur er hér í dag

Óskar Ófeigur Jónsson í Berlín skrifar
„Ég er furðu rólegur þótt spennustigið sé hátt. Ég reyni að hugsa lítið út í þetta en ég er tilbúinn,“ sagði Haukur Helgi Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta, í samtali við Óskar Ófeig Jónsson í Berlín í dag.

Hörður Axel Vilhjálmsson tók í sama streng og Haukur.

„Við held að við séum allir bara tilbúnir í þetta og við erum eins tilbúnir og hægt er.“

Búast má við því að Haukur og Hörður verði í stórum hlutverkum á mótinu.

„Það fylgir því að við höfum verið með liðinu í fleiri ár og með því kemur meiri ábyrgð og meiri pressa. Leikmennirnir treysta manni betur sem er skemmtilegra,“ sagði Haukur og Hörður tók í sama streng.

„Ábyrgðin í þessu er af hinu góða. Maður er í þessu til að spila og maður tekur fagnandi hverri mínútu sem maður fær á þessu móti. Það er mikil kúnst að stilla spennustigið rétt fyrir jafn stóran leik.“

Báðir leikmenn voru sammála um að varnarleikurinn liðsins væri mikilvægasti þátturinn á mótinu.

„Það er okkar aðalsmerki að vera fastir fyrir varnarlega og við þurfum að spila út á því.“

Strákarnir sögðu að tapið gegn Belgum sæti ekki í mönnum.

„Það er löngu gleymt. Það var þriðji leikurinn á þremur dögum og hann gaf ekki rétta mynd af liðinu.“

Haukur og Hörður eiga það sameiginlegt að hafa leikið upp yngri flokkana hjá Fjölni en Haukur tilkynnti Herði það að hann hefði verið þjálfari sinn um tíma.

„Þetta byrjaði allt þar, það er eina liðið sem ég hef spilað með á Íslandi og Hörður var meðal annars þjálfari minn um tíma,“ sagði Haukur en Hörður hafði ekki hugmynd um það.

„Það er allt mér að þakka að hann sé hér í dag,“ sagði Hörður léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×