Körfubolti

Logi Gunnarsson: Hefðum alveg getað stolið þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson keyrir upp að körfunni.
Logi Gunnarsson keyrir upp að körfunni. Vísir/Valli
Logi Gunnarsson hitti ekki vel á afmælisdaginn og varð að sætta sig við naumt tap á móti Þjóðverjum en hann gaf engu að síður allt sitt inn á vellinum og allir í íslenska liðinu.

„Ef við hefðum hitt úr réttum skotunum á réttum tíma þá hefðum við alveg getað stolið þessum leik og unnið sigur í fyrsta leik," sagði Logi eftir leikinn í Mercedes Benz höllinni í dag.

„Ég er mjög sáttur með spilamennskuna og vörnin er náttúrulega frábær hjá okkur. Það er ástæða fyrir því að við erum hérna," segir Logi. Það var enginn leikamaður íslenska liðsins með stjörnur í augum.

„Við eigum ekki að horfa á hinar stórstjörnurnar og vera hrifnir af þeim. Við vitum að við erum góðir körfuboltamenn og það er ástæða fyrir því að við erum hérna. Ég er mjög sáttur með leikinn í kvöld," sagði Logi.

„Við berjumst alltaf eins og hundar og erum á fullu. Svona stórt og mikið lið eins og Þjóðverjar eru með finnst ekkert þægilegt að vera með litla titti í kringum sig að ýta sér. Þeir fóru að tapa boltanum og við keyrðum í bakið á þeim og fengum þrista," sagði Logi.

„Þannig eigum við að spila og þannig munum við spila áfram í næstu leikjum. Ef við getum spilað á móti þessu liði þá getum við spilað á móti hvaða liði sem er og stolið sigri," sagði Logi. Hann segir að liðið fari óhrætt inn í næstu leiki.

„Við getum spilað á móti bestu liðunum í Evrópu. Við byggjum á þessu og förum í leikinn á morgun til að bæta við og spila áfram þennan bolta. Núna er sviðsskrekkurinn aðeins farinn úr okkur þó að hann hafi ekki verið mikill því við vorum bara spenntir," sagði Logi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×