Körfubolti

Hörður Axel: Við erum engir túristar í Berlín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson reynir hér að troða boltanum í körfu Þjóðverja í leiknum í dag.
Hörður Axel Vilhjálmsson reynir hér að troða boltanum í körfu Þjóðverja í leiknum í dag. Vísir/Valli
Hörður Axel Vilhjálmsson átti frábæran leik í vörninni þegar Íslands tapaði naumlega með sex stigum á móti Þjðoðverjum í fyrsta leik sínum á Eurobasket 2015.

Auk þess að skora 11 stig þá tók Hörður Axel 6 fráköst og stal 2 boltum af leikmönnum þýska liðsins.

„Það svíður að hafa klikkað svona mikið á vítalínunni. Við komum okkur í góða stöðu til að hugsanlega vinna leikinn og við erum sáttir með það," sagði Hörður Axel.

„Við gerðum ekki nóg og það er drullufúlt af því að okkur finnst við hafa átt skilið að vinna leikinn," sagði Hörður en íslenska liðið vann fjórða leikhlutann með tíu stigum og var næstum því búið að vinna upp forskot Þjóðverjanna.

„Við sýndum seiglu og það að við munum halda áfram sama hvað. Við erum komnir á mótið til þess að láta hafa fyrir okkur og ætlum að gera eitthvað hérna. Við erum ekki komnir hingað bara til að vera með. Við erum engir túristar í Berlín," sagði Hörður Axel.

„Auðvitað erum við sáttir með að sýna öllum það að við erum mættir en við erum dullufúlir með að hafa ekki unnið leikinn," sagði Hörður Axel. Hann var frábær í vörninni og grimmur í öllum sínum aðgerðum.

„Já ég var alveg ánægður með minn leik. Ég er í stóru varnarhlutverki hér og það er mitt að setja svolítið tóninn. Ég er sáttur með vörnina mína en hún er yfirleitt alltaf til staðar. Ég hefði sem dæmi mátt skjóta betur á vítalínunni," sagði Hörður Axel.

Hörður Axel klikkaði á 4 af 7 vítum sínum og íslenska liðið klikkaði alls á tíu vítum í leiknum.

„Ég hugsa um þessi víti sem klikkuðu á leiðinni inn í klefa en svo ætla ég að gleyma þeim," sagði Hörður. En hvernig er orkan eftir erfiðan fyrsta leik.

„Ég er góður enda búinn að vera í stanslausri meðhöndlun hjá frábærum sjúkraþjálfurum. Ég hef oft verið þreyttari en þetta. Nú er bara áfram gakk og næsti leikur á morgun," sagði Hörður Axel að lokum.


Tengdar fréttir

Jón Arnór: Aldrei verið jafn stressaður fyrir leik á ævinni

Jón Arnór Stefánsson, stórstjarna íslenska körfuboltalandsliðsins, var svekktur í lokin á leik Íslands og Þýskalands. Ísland tapaði með sex stiga mun, 71-65, í hörkuleik, en þetta var fyrsti leikur Íslands á Eurobasket.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×