Fótbolti

Kasakar voru yfir í samtals 98 mínútur í Hollandi og Tékklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasakar komust yfir á móti Tékkum í síðasta leik sínum í undankeppninni.
Kasakar komust yfir á móti Tékkum í síðasta leik sínum í undankeppninni. Vísir/AFP
Ísland mætir Kasakstan á Laugardalsvellinum í kvöld og nægir aðeins eitt stig til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn.

Lið Kasakstan hefur ekki enn náð í stig á útivelli en eina stig liðsins í riðlinum var í markalausu jafntefli á móti Lettlandi á heimavelli í fyrstu umferðinni.

Síðan þá hefur Kasakstan tapað sex leikjum í röð þar á meðal 3-0 á heimavelli á móti Íslandi í marsmánuði.

Kasakar hafa tapað útileikjum sínum á móti Hollandi (3-1), Tyrklandi (3-1) og Tékklandi (2-1) en eiga síðan Letta á heimavelli í lokaleiknum.

Það vekur samt athygli að landslið Kasakstan hefur skorað í öllum útileikjum sínum og komist í 1-0 í tveimur þeirra.

Kasakar voru þannig yfir í samtals 98 mínútur í leikjum sínum í Hollandi og Tékklandi.

Kasakstan komst í 1-0 á 17. mínútu á Amsterdam Arena og þannig var staðan þar til á 62. mínútu er Hollendingum tókst loksins að jafna. Hollenska liðið skoraði síðan tvö mörk til viðbótar.

Á fimmtudaginn var komust Kasakar í 1-0 á 21. mínútu á móti Tékkum í Plzen og þannig var staðan þar til á 74. mínútu. Milan Skoda náði þá að jafna metin og skoraði síðan líka sigurmark Tékklands fjórum mínútum fyrir leikslok.

Kasakar eru búnir að fá á sig átta mörk í útileikjum sínum þremur en sex þeirra hafa komið á síðasta hálftíma leikjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×