Körfubolti

Bara tveir leikmenn á EM með fleiri þrista en Hlynur og Haukur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson verið heitur fyrir utan línuna.
Haukur Helgi Pálsson verið heitur fyrir utan línuna. vísir/valli
Ísland á tvo leikmenn meðal efstu manna í skoruðum þriggja stiga körfum eftir tvær fyrstu umferðirnar í riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta.

Hlynur Bæringsson og Haukur Helgi Pálsson eru í 3. til 6. sæti yfir flesta þrista en báðir hafa þeir skorað sex þriggja stiga körfur í þessum tveimur leikjum eða þrjár körfur að meðaltali í leik.

Enginn annar leikmaður í riðlinum í Berlín hefur náð að skora sex þrista á þessum tveimur fyrstu leikdögum og á Ísland því tvær öflugustu þriggja stiga skytturnar til þessa samkvæmt tölfræðinni.

Það eru bara tveir leikmenn á öllu Evrópumótinu sem hafa skorað fleiri þrista en þeir Hlynur og Haukur en það eru Makedóníumaðurinn Aleksandar Kostoski og Rússinn Dmitry Khvostov sem báðir hafa skorað sjö þrista eða 3,5 að meðaltali í leik.

Hlynur Bæringsson skoraði 4 þrista í sjö skotum á móti Þjóðverjum og 2 þrista í 4 skotum á móti Ítölum. Hann hefur nýtt 6 af 11 skotum sínum sem gerir 54,5 prósent þriggja stiga skotnýtingu.

Haukur skoraði 2 þrista í 3 skotum á móti Þýskalandi og 4 þrista í 8 skotum á móti Ítölum. Hann er því líka með 54,5 prósent þriggja stiga skotnýtingu eins og Hlynur.

Íslenska liðið er annars í 6. til 7. sæti yfir flestar þriggja stiga körfur í fyrstu tveimur leikjunum en þeir Hlynur og Haukur hafa skorað 12 af 16 þristum íslenska liðsins eða 75 prósent karfanna.

Makedóníumenn hafa skorað flesta þrista (24 eða 12,0 í leik) en Tyrkir eru jafnir Íslendingum á toppnum yfir flesta þrista í riðlinum í Berlín.


Tengdar fréttir

Hundrað þristar hjá Jóni Arnóri

Jón Arnór Stefánsson varð í gær þriðji leikmaður landsliðsins til að setja hundrað þriggja stiga körfur í búningi íslenska landsliðsins.

Áttum aftur möguleika að vinna gegn Ítalíu

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur unnið hug og hjörtu margra með frammistöðu sinni í fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu í Berlín þrátt fyrir tvö naum töp. Liðið stóð vel í hárinu á Þýskalandi og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×