Körfubolti

Tony Parker orðinn sá stigahæsti í sögu EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tony Parker er leiðtoginn í franska liðinu.
Tony Parker er leiðtoginn í franska liðinu. vísir/getty
Tony Parker, bakvörður franska landsliðsins og NBA-liðsins San Antonio Spurs, varð í gær stigahæsti leikmaður úrslitakeppni Evrópumótsins frá upphafi.

Tony Parker var fyrir leikinn búinn að jafna Grikkjan Nikolaos Galis sem skoraði 1030 stig á EM á árunum 1981 til 1991.

Tony Parker gerði gott betur en að bæta metið því hann skoraði 16 stig í 69-66 sigri Frakka á Póllandi. Frakkar hafa nú unnið alla þrjá leiki sína á mótinu.

„Þegar ég byrjaði ferilinn minn þá sá ég aldrei fyrir mér að komast hingað. Þetta er eins og draumur. Við erum að tala að vera orðinn stigahæsti leikmaður Evrópumótsins frá upphafi. Það er mikill heiður að vera í umræðunni sem einn af bestu leikmönnum Evrópu allra tíma," sagði Tony Parker.

„Það er stórfurðulegt að Frakki sé á toppnum á þessum lista en ekki menn eins og (Toni) Kukoc eða (Drazen) Petrovic sem áttu báðir magnaðan feril í Evrópu," sagði Parker.

Tony Parker er orðinn 33 ára gamall og hefur skorað þessi 1046 stig sín í 62 leikjum sem gera 16,9 stig að meðaltali í leik. Hann spilaði á sínum fyrsta Evrópumóti árið 2000.

Tony Parker er með 16,7 stig og 3,7 stoðsendingar á 27,7 mínútum að meðaltali í fyrstu þremur leikjum sínum á Eurobasket 2015. Hann lét sér nægja 11 stig á 20 mínútum í stórsigrinum á Bosníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×