Körfubolti

Hlynur: Nýttum ekki öll okkar tækifæri

Kolbeinn Tumi Daðason í Berlín skrifar
Hlynur Bæringsson gegn Serbíu í dag.
Hlynur Bæringsson gegn Serbíu í dag. vísir/valli
„Þetta var rosaleg barátta. Það voru langir kaflar ágætir hjá okkur,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í körfubolta, við Vísi eftir tapið gegn Serbíu í dag.

Ísland var í fínni stöðu í hálfleik þrátt fyrir að geta gert betur í sóknarleiknum. „Mér fannst við ekki nýta öll tækifærin sem við fengum. Við vorum að fá opin skot, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Hlynur.

„Þetta var erfiður leikur en þeir eru rosalega öflugir. Það er erfitt að verjast þeim því þeir hlaupa kerfin sín rosalega vel.“

„Við hefðum getað sett meiri spennu í þetta en í seinni hálfleik þegar þeir náðu góðum spretti gátum við ekki komið aftur eins og við gerðum gegn Ítalíu og Þjóðverjum.“

Strákarnir fá litla hvíld því á morgun tekur við leikur gegn stjörnum prýddu liði Spánverja.

„Það verður erfitt að eiga við Gasol, en við mætum þeim eins og öllum öðrum. Við leggjum allt undir eins og alltaf og verðum brattir eftir leik eins og alltaf.“

Hvernig er að reyna að lesa í mótherjann þegar svona stuttur tími er á milli leikja?

„Það er erfitt. Við áttum í basli með það varðandi Serbana því þeir hlaupa bara sína vagg og veltu og svo lesa þeir hvorn annan. Þjóðverjar voru með mjög ákveðin kerfi. Við sáum alltaf hvað þeir voru að gera,“ sagði Hlynur.

„Við náum eitthvað að lesa Spánverjana en það er ekki það sem skiptir mestu máli á morgun,“ sagði Hlynur Bæringsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×