Körfubolti

Jón Arnór: Verður flott að fá Pavel sterkan inn í tvo síðustu leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í dag.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í dag. Vísir/Valli
Jón Arnór Stefánsson náði sér ekki alveg á strik í dag þegar íslenska körfuboltalandsliðið tapaði með 29 stigum á móti Serbíu í þriðja leiknum sínum á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín.

„Mér finnst 30 stig ekki gefa alveg rétta mynd af þessu. Mér fannst við fá ótrúlega mikið af opnum skotum sem við nýttum ekki," sagði Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn.  Jón Arnór var bara með 3 stig í leiknum en hnéð var að plaga hann og af þeim sökum spilaði hann mjög lítið í seinni hálfleik.

„Það var bara stórgott að vera bara tíu stigum undir í hálfleik miðað við það að þeir voru að hitta úr sextíu prósent skota sinna en við bara úr þrjátíu prósent skota okkar. Það var í raun bara fáranlegt að við værum bara tíu stigum undir í hálfleik," sagði Jón Arnór.

„Hefðum við nýtt eitthvað af þessum skotum þá hefði þetta litið mun betur út. Þeir stungu auðvitað af í fjórða leikhluta en mér fannst við berjast vel," sagði Jón Arnór. Hann vildi hrósa mörgum strákum í íslenska liðinu.

„Logi var svaka góður í dag og mér fannst Martin (Hermannsson) koma sterkur inn og Hössi (Hörður Axel Vilhjálmsson) líka. Pavel setti líka niður tvö skot. Hann þarf á því að halda og við þurfum á honum að halda meira í sókninni," sagði Jón Arnór og hann sér fyrir sér að nú komi Pavel sterkari inn í þetta.

„Það má ekki gleyma því að Pavel er rosalega mikilvægur fyrir okkur varnarlega. Þetta hefur ekki verið að detta fyrir Pavel í sókninni en hann er einn okkar mikilvægasti maður og það verður flott að fá hann sterkan inn í síðustu tvo leikina. Það er margt jákvætt þrátt fyrir þetta tap," sagði Jón Arnór.

Pavel Ermolinskij skoraði sínar tvær fyrstu körfur á Evrópumótinu í dag en þær voru báðar þriggja stiga körfur í seinni hálfleiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×