Fótbolti

Strachan: Þetta er ekki búið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strachan var stoltur af sínum mönnum þrátt fyrir tapið gegn heimsmeisturum Þjóðverja í gær.
Strachan var stoltur af sínum mönnum þrátt fyrir tapið gegn heimsmeisturum Þjóðverja í gær. vísir/getty
Þrátt fyrir tap gegn Þýskalandi á heimavelli í gær segir Gordon Strachan, landsliðsþjálfari Skotlands, að sínir menn eigi enn möguleika á að komast á EM í Frakklandi á næsta ári.

Þessi landsleikjavika hefur ekki verið góð hjá Skotum en þeir töpuðu bæði fyrir Georgíu og Þýskalandi og eru nú fjórum stigum frá 3. sætinu í D-riðli, en það gefur annað hvort sæti í lokakeppninni eða sæti í umspili.

„Við eigum enn möguleika,“ sagði Strachan eftir leikinn gegn Þjóðverjum í gær. Skotar áttu ágætis spretti í leiknum og jöfnuðu t.a.m. metin í tvígang í fyrri hálfleik. Þeim tókst hins vegar ekki að koma til baka eftir að Ilkay Gündogan kom heimsmeisturunum í 2-3 á 54. mínútu.

„Við áttum möguleika á að ná í stig í síðustu tveimur leikjum en gerðum það ekki svo við getum ekki kennt neinum öðrum um en okkur sjálfum. En við erum enn á lífi í riðlinum,“ bætti Strachan við en hans menn mæta Póllandi á heimavelli og Gíbraltar á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni.

Þrátt fyrir stigaleysið var Strachan sáttur með spilamennsku Skota gegn Þjóðverjum í gær.

„Við spiluðum vel og áttum góða möguleika á að ná í stig en við höfðum ekki heppnina með okkur. Þetta var nálægt því að vera hin fullkomna frammistaða. Ég finn til með leikmönnunum sem geta verið stoltir af sinni frammistöðu,“ sagði Strachan að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×