Fótbolti

Austurríki skellti Svíþjóð | Spánverjar í góðri stöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Austurríki rúllaði yfir Svíþjóð á útivelli.
Austurríki rúllaði yfir Svíþjóð á útivelli. vísir/getty
Níu leikir fóru fram í undankeppni EM 2016 í kvöld.

Wayne Rooney sló markamet enska landsliðsins þegar hann skoraði seinna mark Englands í 2-0 sigri á Sviss á Wembley.

England er með fullt hús stiga á toppi E-riðils en lærisveinar Roy Hogdson eru þegar búnir að tryggja sér sæti á EM í Frakklandi á næsta ári.

Í sama riðli vann Slóvenía Eistland með einu marki gegn engu og Litháen vann 2-1 sigur á San Marinó.

Í D-riðli steinlágu Svíar, 1-4, fyrir Austurríki á heimavelli. Martin Harnik gerði tvö mörk fyrir Austurríki og þeir David Alaba og Marc Janko sitt markið hvor. Zlatan Ibrahimovic skoraði mark Svía.

Austurríki er með yfirburðastöðu á toppi riðilsins með 22 stig, átta stigum meira en Rússar sem komust upp fyrir Svía í 2. sætið með 0-7 risasigri á Liechtenstein á útivelli.

Svíar eru í 3. sæti riðilsins með 12 stig, einu stigi á undan Svartfjallalandi sem vann 2-0 sigur á Moldavíu á útivelli.

Evrópumeistarar Spánverja unnu 0-1 sigur á Makedóníu á útivelli í C-riðli. Eina mark leiksins var sjálfsmark Tomislav Pacovski, markmanns Makedóníu.

Í sama riðli vann Hvíta-Rússland 2-0 sigur á Lúxemborg og Slóvakía og Úkraína gerðu markalaust jafntefli.

Spánn situr á toppi C-riðils með 21 stig, tveimur stigum meira en Slóvakía. Úkraína er svo í 3. sætinu með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×