Körfubolti

Tveir stigahæstu menn mótsins spila í riðli Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gasol í baráttunni gegn Ítalíu í gær.
Gasol í baráttunni gegn Ítalíu í gær. Vísir/Getty
Spánn og Ítalía á tvo stigahæstu mennina í fyrstu þremur umferðum Evrópumótsins í körfubolta en öll liðin á Eurobasket 2015 hafa nú lokið þremur leikjum.

Spánverjinn Pau Gasol, sem mætir einmitt Íslandi í kvöld, er stigahæsti leikmaður mótsins eins og er. Þessi reynslumikli miðherji hefur skorað 23,7 stig að meðaltali í leik.

Gasol skoraði 34 stig í gær en það dugði þó ekki spænska liðinu sem tapaði á móti Ítölum 105-96.

Pau Gasol, sem spilar með Chicago Bulls í NBA-deildinni, var einnig með 10 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum en liðsfélagar hans gerðu ekki nóg til að landa sigri á móti sjóðheitum skyttum ítalska liðsins.

Einn af þeim sem fann fjölina í gær var ítalski framherjinn Danilo Gallinari sem skoraði 29 stig í sigrinum á Spáni. Gallinari er nú annars stigahæsti maður mótsins með 22,0 stig að meðaltali í leik.

Danilo Gallinari, sem spilar með Denver Nuggets í NBA-deildinni, skoraði 33 stig á móti Tyrkjum en fann sig engan veginn á móti íslenska liðinu.

Gallinari skoraði bara 4 stig á móti Íslandi og þar fékk hann fimm villur og spilaði  bara í 18 mínútur. Hann hefur því skorað 31,0 stig að meðaltali á móti öðrum liðum en Íslandi.

Ítalinn Marco Belinelli er þriðji leikmaðurinn úr riðli Íslands sem kemst í hóp tíu efstu á listanum yfir stigahæstu mennina en hann er í 8. sæti með 17.7 stig að meðaltali.

Belinelli var með 27 stig og setti niður 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum í sigurleiknum á Spánverjum í gær.

Jón Arnór Stefánsson er efstur af íslensku leikmönnunum en hann er nú í 37. til 40. sæti með 12,3 stig að meðaltali í leik. Jón Arnór skoraði 23 stig í fyrsta leiknum en hefur "bara" skorað 14 stig í síðustu tveimur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×