Körfubolti

Helgi Már verður ekki með í kvöld vegna meiðsla

Helgi Már, hér fyrir miðju.
Helgi Már, hér fyrir miðju. Vísir/Valli
Helgi Már Magnússon, leikmaður KR og íslenska landsliðsins í körfuknattleik, verður ekki með í leiknum gegn Spánverjum í kvöld vegna meiðsla.

Þetta staðfesti Arnar Már Guðjónsson, annar aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins, í samtali við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann Vísis í Berlín.

Lenti hann í samstuði við Jakob Örn Sigurðarson í leiknum gegn Serbíu í gær en við það fékk Helgi högg á hnéð.

„Helgi Már verður ekki með í kvöld, hann fékk högg á hnéð í gær þegar Jakob tæklaði hann,“ sagði Arnar Már léttur og bætti við:

„Hann finnur til í liðböndunum. Þetta eru engin stórvægileg meiðsli en hann verður ekki með í kvöld. Annars eru allir heilir, Haukur hvíldi á æfingunni í dag en læknateymið hefur gefið grænt ljós á alla aðra leikmenn liðsins.“

Íslenska liðið leikur sinn fjórða leik á EM í körfuknattleik, Eurobasket, í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður bein textalýsing á Vísi frá blaðamanni í höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×