Körfubolti

Pavel: Ég er jóker hérna

Pavel í leiknum gegn Italíu.
Pavel í leiknum gegn Italíu. Vísir/Valli
Pavel Ermolinskij spilar margar stöður fyrir íslenska körfuboltalandsliðið á Evrópumótinu í Berlín en þjálfarateymið reynir oft að stilla honum upp á óvenjulegum stöðum til að reyna nýta sér hæð og fjölhæfni hans betur.

„Ég er bara jóker hérna og þeir nota mig í hvað sem er. Ég var að fylla á brúsana í hálfleik," sagði Pavel Ermolinskij sposkur á svip eftir Serbíuleikinn í gær.

„Við erum bara þannig lið," sagði Pavel sem spilaði um tíma sem miðherji í leiknum á móti Serbíu á meðan Hlynur Bæringsson, aðalmiðherji liðsins, fékk hvíld.

Íslenska liðið verður að prófa nýja og óvenjulega hluti til þess að rugla þessa stóru og sterku mótherja aðeins í ríminu. Þarna var Pavel inná með hálfgerðu bakvarðarliði.

„Þetta er bara villimennska í raun og veru. Það er það sem við verðum að gera, að reyna að vera eins óþægilegir og við getum fyrir þá. Þessi lið eru vön að spila ákveðin stíl og ákveðin bolta. Við erum að bjóða upp á eitthvað allt annað," sagði Pavel.

„Sum lið ná að aðlagast okkur eins og Serbarnir gerðu en önnur lið eiga erfitt með það. Við verðum bara að halda okkur við það sem við gerum vel," sagði Pavel en íslenska liðið spilar sinn fjórða leik í dag og þá verða Spánverjar mótherjarnir.

„Það verður eitthvað svipað upp á teningnum á morgun. Þeir eru mjög agaðir og mjög vel spilandi. Þetta eru auðvitað allt frábærir leikmenn og ofan á það," sagði Pavel.  

„Eins og við vissum fyrir mót þá þurfum við að hitta á leik þar sem að það er allt ofan í og á sama tíma verðum við að vera klikkaðir í vörnnni og gera þeim þetta rosalega erfitt fyrir. Þetta verður að vera þannig og við vissum það fyrir mótið," sagði Pavel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×